Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Úthafsrækjuleiðangri Hafró lokið

Mynd með færslu
 Mynd: Ingibjörg Jónsdóttir - Hafró
Sautján daga úthafsrækjuleiðangri Hafrannsóknastofnunar á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni lauk í gær. Leiðangurinn gekk vel og vel viðraði til athugana, að sögn Ingibjargar G. Jónsdóttur leiðangursstjóra. Hún segir að niðurstaðna úr athugunum megi vænta fljótlega eftir verslunarmannahelgi.

Úthafsrækjuleiðangurinn er farinn árlega og úthafsrækjustofninn skoðaður allt frá Norðausturlandi yfir að Vestfjarðamiðum. Einnig var farið á Eldeyjarsvæðið. Gögnin verða notuð til að meta stofnstærð rækjustofna á svæðunum. 

Hafa merkt tæplega 3.000 þorska á árinu

Aðalmarkmið leiðangursins var að skoða magn úthafsrækju og útbreiðsluna, en einnig voru merktir tæplega 600 þorskar fyrir austan landið. Nú hafa tæplega 3.000 þorskar verið merktir það sem af er ári.

Merkingar sem þessar veita upplýsingar um ferðir fiska og þorskur sem merktur hefur verið við Ísland hefur sjaldan fundist fyrir utan íslenska lögsögu. Byrjað var að merkja þorsk árið 1904 og frá þeim tíma hefur þorskur verið merktur reglulega. Þó var lítið um merkingar frá árinu 2010 þangað til á síðasta ári þegar aftur var hafist handa.

Á vef Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að merkingar á þorski hafi gefið vísbendingar um að kynþroska fiskur dvelji um hríð á hrygningarslóð og leggi að hrygningu lokinni af stað í ætisgöngur norður á bóginn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hafró
Merktur þorskur - Hafró
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV