Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Þetta er óskrifað blað“

23.07.2020 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Enginn liggur undir grun vegna lambshræs sem fannst á Snæfellsnesi um miðjan mánuðinn. Hræið fannst í fjöruborðinu við Dritvík og bar þess merki að mannfólk hafi verið að verki. Lögreglustjórinn á Vesturlandi segir að málið sé óskrifað blað og hann á ekki von á því að misgerðarmennirnir finnist.

Málið hefur verið til rannsóknar hjá lögreglunni á Vesturlandi en ekki hefur fengist botn í það. Skessuhorn, fréttaveita Vesturlands, greindi frá því í fyrradag að sést hefði til þriggja manna á landareign á Snæfellsnesi sem grunaðir væru um verknaðinn. Lögreglustjórinn á Vesturlandi segir í samtali við fréttastofu RÚV að mennirnir séu ekki grunaðir að svo stöddu. 

Að sögn lögreglunnar á Vesturlandi eru atvik af þessu tagi ekki algeng. Málið er þó ekki einsdæmi því sumarið 2017 eltu ferðamenn uppi lamb við Breiðdalsvík og skáru það á háls. Mennirnir voru handteknir í kjölfarið og kærðir fyrir eignaspjöll. Þeim var gert að greiða 120 þúsund krónur í sekt vegna brotsins en var svo sleppt. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV