Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir viðbót duga skammt

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
720 tonna viðbót við strandveiðikvótann, sem sjávarútvegsráðherra tilkynnti um í dag, dugar skammt. Meira þarf til þess að hægt verði að halda úti veiðum út strandveiðitímabilið. Þetta segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda sem segir strandveiðimenn hafa búist við meiru, eðlileg viðbót hefði verið 1.700 tonn.

Strandveiðitímabilið hefst í maí og stendur út ágúst. Áður hafði verið úthlutað 11.100 tonna aflamarki til veiðanna og með þessari viðbót eru aflaheimildirnar 11.820 tonn, þar af er þorskur rúm 10.700 tonn. Viðbótarráðstöfunin byggir á svokallaðri 5,3% reglu í lögum um fiskveiðar sem segir að draga megi 5,3% af leyfilegum heildarafla í hverri fisktegund til að mæta áföllum og auka við strandveiðar.

Örn segir að aldrei hafi jafn margir stundað strandveiðar og að allt að 200 tonn veiðist á dag. Hann segist fagna ákvörðun sjávarútvegsráðherra. 

„En ég ætla nú að vona að það finnist nú eitthvað meira niðri í botninum á þessu. Ekki síst vegna þess hversu þorskstofninn er sterkur eins og raun ber vitni. Þá hlýtur að vera hægt að bjarga því þannig að strandveiðar geti verið til ágústloka.“

Dugar fram í miðjan ágúst

Hvað gæti þessi viðbót dugað lengi? „Ég reikna með því að eins og aflabrögðin hafa verið undanfarið, þá gæti þetta orðið til þess að strandveiðar gætu verið allavegana tvær vikur í ágúst.“ 

Örn segir að aflaheimildir hafi ekki verið fullnýttar undanfarin tvö ár og að eðlilegt hefði verið að bæta því við nú, sem ekki var veitt þá. „Þá hefðum við verið með 1.700 tonn sem hefðu bæst við. Og einnig að á síðasta ári vorum við með 1.000 tonnum meira í þorski þannig að við eigum aðeins í land með að ná því sem við töldum að ætti að bætast við og vera aflaviðmiðið á þessu fiskveiðiári,“ segir Örn.