
Flæðir yfir flugvöllinn á Siglufirði
Að sögn Ámunda Gunnarssonar slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar er fátt annað til ráða en bíða af sér flóðið og kanna aðstæður þegar vatnið sjatnar.
Ámundi segir mjög litla umferð vera um flugvöllinn á Siglufirði, að mestu leyti sportflug. Völlurinn er þó vara- og öryggisflugvöllur ef eitthvað upp á stærri flugvöllum. Því veldur flóðið engum búsifjum að mati Ámunda.
Hann segir svona gríðarlega vatnavexti ekki algenga og man ekki eftir að flætt hafi yfir flugvöllinn áður. Gul veðurviðvörun verður í gildi á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og eystra og Suðausturlandi á morgun.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands heldur áfram að rigna á Norðurlandi og norðan til á Vestfjörðum í fyrramálið. Rigningin staldrar lengur við á Tröllaskaga og styttir ekki upp þar fyrr en seint annað kvöld.
Þá er varað við snörpum hviðum austan öræfa og á sunnanverðum Austfjörðum og verður ekkert ferðaveður fyrir húsbýla og þunga aftanívagna á þeim slóðum.