Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flæðir yfir flugvöllinn á Siglufirði

18.07.2020 - 00:10
Flugvöllurinn á Siglufirði í vatnavöxtum
 Mynd: RÚV
Flugvöllurinn á Siglufirði er umflotinn vatni og flætt hefur inn á flugbrautina.

Að sögn Ámunda Gunnarssonar slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar er fátt annað til ráða en bíða af sér flóðið og kanna aðstæður þegar vatnið sjatnar.

Ámundi segir mjög litla umferð vera um flugvöllinn á Siglufirði, að mestu leyti sportflug. Völlurinn er þó vara- og öryggisflugvöllur ef eitthvað upp á stærri flugvöllum. Því veldur flóðið engum búsifjum að mati Ámunda.

Hann segir svona gríðarlega vatnavexti ekki algenga og man ekki eftir að flætt hafi yfir flugvöllinn áður. Gul veðurviðvörun verður í gildi á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og eystra og Suðausturlandi á morgun.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands heldur áfram að rigna á Norðurlandi og norðan til á Vestfjörðum í fyrramálið. Rigningin staldrar lengur við á Tröllaskaga og styttir ekki upp þar fyrr en seint annað kvöld.

Þá er varað við snörpum hviðum austan öræfa og á sunnanverðum Austfjörðum og verður ekkert ferðaveður fyrir húsbýla og þunga aftanívagna á þeim slóðum.