Niðurstöður rannsóknarnefndar tefjast vegna COVID-19

Mynd með færslu
Frá vettvangi snjóflóða á Flateyri um miðjan janúar.  Mynd: Önundur Pálsson - Aðsend mynd
Vinna rannsóknarnefndar almannavarna sem Alþingi skipaði til þess að rýna og meta almannavarnaraðgerðir í kjölfar fárviðrisins í vetur tafðist vegna kórónuveirufaraldursins.

Herdís Sigurjónsdóttir, formaður nefndarinnar, segir í samtali við fréttastofu það hafa frestast að skila niðurstöðu vegna þessa. 

Ekki er komin dagsetning á það þegar niðurstöður verða kynntar en stefnt er á að finna dagsetningu í haust. Nefndin hefur komið reglulega saman síðan hún hittist fyrst 19. desember í fyrra. Herdís segir að tafir hafi verið á því að fá gögn sem þurfti til rannsóknarvinnunnar því flestir sem veittu þau gögn voru í fjarvinnu.

Þann 4. mars var hlutverk Almannavarna til umræðu á Alþingi. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði út í seinkun á starfsemi nefndarinnar þá.

„Er staðan virkilega sú að rannsóknarnefndin sé aðeins nýlega búin að fá inni í tómu skrifstofuhúsnæði? Er það rétt að nefndin geti ekki einu sinni óskað eftir gögnum og upplýsingum því að hún hefur engan stað til að setja gögnin á og hefur engar tölvur eða netföng til að óska eftir upplýsingunum?“ spurði Albertína.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, svaraði á þá leið: „Hún hefur núna tekið til starfa, henni hefur verið fundið húsnæði. Mér er kunnugt um að þar er ekki enn allur búnaður til staðar en þetta sýnir hins vegar vilja núverandi ríkisstjórnar til að forgangsraða þessum málum, setja fram skýra stefnu, horfa til nýrra áskorana, forgangsraða þessum málaflokki sem skiptir okkur öll máli því að þetta er risastórt samfélagslegt verkefni.“

Nefndin var virkjuð í fyrst sinn í kjölfar óveðursins sem reið fyrir landið í vetur. Unnin voru drög að reglugerð um útfærslu á verkefnum nefndarinnar í Dómsmálaráðuneytinu sem nefndin starfar eftir til þess að hún gæti tekið til starfa.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi