Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fá ekki farseðil endurgreiddan - sakaðir um háreysti

16.07.2020 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
Samgöngustofa hefur hafnað kröfu tveggja farþega um endurgreiðslu farmiða eftir að þeim var meinað að fara um borð í vél Icelandair á grundvelli öryggissjónarmiða. Starfsmaður Icelandair taldi hegðun farþeganna hafa verið slíka að öryggi hans hefði verið ógnað.

Í úrskurði Samgöngustofu kemur fram að farþegarnir hafi átt bókað far til Berlínar frá Keflavík í nóvember. Í svari Icelandair segir að annar farþeganna hafi ekki viljað una fyrirmælum starfsmanna auk þess sem hann hafi haft uppi háreysti og ógnandi tilburði.

Í samráði við yfirmann í brottfararsal og flugstjóra hafi verið tekin sú ákvörðun að meina viðkomandi farþega að fljúga með vélinni 

Farþegarnir höfnuðu þessum skýringum og sögðust hafa í einu og öllu farið eftir fyrirmælum starfsmanna og öryggisvarðar á vegum Isavia. Framkoma starfsmanns á vegum Icelandair hafi verið félaginu til skammar, hann hafi verið mjög reiður og með engu móti viljað aðstoða þá við innritun á innritunarborði sökum þess að annar farþeginn var hjartveikur. 

Þeir sögðu það fjarri sanni að þeir hefðu verið með háreysti og ógnandi tilburði því tilraunir fjölmargra starfsmanna Icelandair í brottfararsal til að stofna til rifrildis hafi ekki borið árangur. 

Samgöngustofa hafnaði kröfu farþeganna og sagði það hlutverk dómstóla að skera úr um hvort ákvörðun flugstjóra að neita viðkomandi farþegum um far hafi verið réttmæt. Leggja þyrfti mat á framburð hlutaðeigandi og eftir atvikum vitna.
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV