Öskur útlendinga munu óma á sjö stöðum á Íslandi

15.07.2020 - 10:44
Mynd með færslu
 Mynd: Íslandsstofa
Inspired by Iceland hefur ýtt úr vör herferð sem felur í sér að bjóða útlendingum að taka upp sín eigin öskur sem spilast svo í hátölurum á sjö stöðum á Íslandi. Öskrin getur fólk tekið upp á vefsíðu sem komið var í loftið af þessu tilefni. Markaðsherferðin ber heitið „Let it out“ eða „Losaðu þig við það“ og skírskotar til kenninga sálfræðinga um streitulosandi áhrif þess að öskra.

Íslandsstofa lét framkvæma könnun á erlendum mörkuðum í byrjun júní og samkvæmt niðurstöðum hennar fundu 40 prósent aðspurðra fyrir streitueinkennum vegna kórónuveirufaraldursins. 

„Langvinn innivera, einsemd, endalausir fjarfundir og röskun á daglegu lífi hefur aukið streitu fólks [...]. Herferðinni er ætlað að draga fram kosti Íslands sem áfangastaðar,“ segir í tilkynningu frá Íslandsstofu. 

Mynd úr herferðinni.

Vilja ekki skapa ónæði fyrir nærstadda

Hátölurunum verður komið fyrir í Viðey, Festarfjall við Grindavík, í nágrenni Skógarfoss, skammt utan við Djúpavog, við rætur Snæfellsjökuls, við Kálfshamarsvík og við Rauðasand. 

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, segir í samtali við fréttastofu að hugað hafi verið vel að því að hátalarnir myndu ekki skapa ónæði fyrir nærstadda. Hljóðstyrknum verður stillt í hóf og hátalarnir eru ekki stórir. „Við völdum þeim stað með það í huga að þeir væru ekki alveg ofan í fólki,“ segir hún. Notendur sem taka þátt í verkefninu fá myndbandsupptöku af því þegar öskrið þeirra glymur á Íslandi. 

Sigríður segir að vegna strjálbýlis og fólksfæðar sé Ísland ákjósanlegur áfangastaður á tímum samskiptafjarlægðar. Hún vonast til þess að með herferðinni verði þeim skilaboðum komið áleiðis til útlendinga í ferðahug. Verkefnið mun standa yfir næstu tvær vikurnar. Hátalarnir verða fjarlægðir að því loknu. 

Markaðsátakið hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda

Herferðin er hluti af markaðsverkefninu Ísland – saman í sókn. Markaðsverkefnið heyrir undir efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 og er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Stjórnvöld tilkynntu í maí síðastliðnum að ríkið ætlaði að verja 1.500 milljónum í átakið. Verkefnið var boðið út og var alþjóðlega auglýsingastofan M&C Saatchi, í samstarfi við íslensku auglýsingastofuna Peel, valin til þess að stýra stefnumörkun, hugmyndavinnu, almannatengslum, hönnun og framleiðslu markaðsefnis fyrir verkefnið. Íslandsstofa sér um framkvæmd þess. 

Í lok júní gaf Inspired by Iceland út myndband sem var fyrsta aðgerðin í markaðsverkefninu. Það ber yfirskriftina „Looks Like You Need Iceland“ og má sjá hér fyrir neðan. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi