Gleðskapur fór úr böndunum á Majorka

15.07.2020 - 18:05
Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Yfirvöld á Majorka tilkynntu í dag að skemmtistöðum við tvær baðstrendur í grennd við höfuðborgina Palma hefði verið lokað. Ungir ferðamenn frá Bretlandi og Þýskalandi gerðu sér þar glaðan dag um síðustu helgi og skeyttu ekkert um varnir vegna COVID-19 farsóttarinnar.

Önnur ströndin er í Magaluf, hin í Palma de Mallorka. Iago Neguruela, efnahags- og ferðamálaráðherra Baleareyja, kynnti ákvörðunina í dag. Hann sagði að framferði ferðafólksins hefði verið með þeim hætti að íbúarnir óskuðu ekki eftir því að fá þess háttar fólk í heimsókn. Lokun staðanna gekk í gildi þegar í stað.

Að sögn spænskra fjölmiðla voru gestirnir ekki með andlitsgrímu og drukku, sungu og dönsuðu án þess að skeyta um fjarlægðartakmörk. Svo hefði virst sem hópurinn hefði aldrei heyrt minnst á kórónuveiru hvað þá COVID-19 farsóttina.

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, lýsti fyrr í vikunni yfir áhyggjum vegna framferðis ferðafólksins. Hann kvaðst ekki vilja vera gleðispillir, en af myndum að dæma hefðu margar reglur verið brotnar sem spænsk stjórnvöld settu til að takmarka útbreiðslu veirunnar.

Tilskipunin sem kynnt var í dag gildir í tvo mánuði. Hún kann að verða endurskoðuð ef ferðamenn, veitingamenn og starfsfólk þeirra fara að settum reglum á næstunni.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi