Gert að rífa legsteinasafnið í Húsafelli

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV fréttir
Páli Guðmundssyni, myndhöggvara, hefur verið gert að rífa nýtt hús sem hýsa átti legsteinasafn á lóðinni Húsafelli 2 í Borgarfirði innan tveggja mánaða.

Eigandi gistiheimilis á næstu lóð, Sæmundur Ásgeirsson sem stefndi Páli, krafðist þess einnig að pakkhús á lóðinni yrði fjarlægt en Páll var sýknaður af þeirri kröfu.  Sameiginlegt, óskipt bílastæði tilheyrir báðum lóðum samkvæmt deiliskipulagi.

Dæmt var á grundvelli þess að útgefið byggingarleyfi fyrir legsteinasafni og pakkhúsi sem samþykkt var í nýju deiliskipulagi árið 2016 hafði ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í Stjórnartíðindum.

Sæmundur kærði ákvörðun Borgarbyggðar til úrskurðarnefndarinnar 2. ágúst 2016. Þar sagði hann að yfirlitsmynd af svæðinu sýndi hversu mikið væri búið að þrengja að gistiheimilinu. Það yrði erfitt að reka það í nálægð við mikinn átroðning gesta auk þess sem möguleikar á stækkun væru úr sögunni vegna skertrar aðkomu.

Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála felldi byggingarleyfið úr gildi 2018 en uppsláttur steypumóta legsteinasafnsins hafði farið fram í október 2017 og voru veggir steyptir í febrúar 2018. 

Páll mun sæta dagsektum að fjárhæð 40.000 sem honum ber að greiða nágranna sínum rífi hann ekki húsið. Dómurinn féll í héraðsdómi Vesturlands í gær.

Uppfært - 11:40 Upphaflega var birt mynd af röngum Páli Guðmundssyni með fréttinni, beðist er velvirðingar á þessu. 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi