Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki talin hafa verið smitberar í vélinni til landsins

15.07.2020 - 15:33
Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Tveir greindust í gær með COVID-19. Þeir voru búnir að vera í sóttkví í viku eftir komuna hingað til lands með flugi. Þá var viðbragðsáætlun Norrænu virkjuð eftir að jákvætt sýni greindist hjá farþega um borð.

Þeir tveir sem greindust með COVID-19 í gær eru með íslenskt ríkisfang og komu til landsins með flugi frá Amsterdam í Hollandi fyrir viku, eftir að hafa áður dvalið í þriðja landinu. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, segist ekki vita hvar fólkið dvaldi áður.

„Það valdi að fara frekar í sóttkví frekar en í sýnatöku og síðan komu veikindi þeirra fram þegar þeir voru í sóttkvínni. Það var búið að versla fyrir þau og fylla á ísskápinn áður en þau komu heim, svo þau gátu bara verið hér heima og hafa ekki þurft að fara út að sækja sér þjónustu,“ segir Rögnvaldur.

Þarf að grafa upp hverjir sátu nálægt þeim í vélinni og eitthvað slíkt?

„Nei, það er það langur tími sem líður frá því að fólkið var í flugvélinni og þangað til það veikist, að það er ekki talið hafa verið smitandi í flugvélinni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá Almannavörnum.

Viðbragðsáætlun Norrænu virkjuð

Eitt jákvætt sýni greindist um borð í Norrænu sem kemur hingað til lands á morgun. Færeysk stjórnvöld sjá um sýnatöku farþega áður en Norræna leggur af stað frá Danmörku, og því er beint til farþega að lágmarka samneyti sín á milli þar til niðurstaða er ljós. Sá sem greindist með smit er hluti af hópi sem er að koma hingað til vinnu, en ekki er búið að staðfesta að smitið sé virkt. 

„Þannig að núna verður allur hópurinn, þegar hann kemur til Seyðisfjarðar, tekinn í sýnatöku aftur, og blóðsýni tekið úr þessum einstaklingi með jákvæða sýnið til að ganga úr skugga um hvort hann sé með mótefni, hvort þetta sé gömul sýking eða hvort þetta sé virkt smit.“

Er hópurinn þá í einangrun á meðan?

„Já, það var virkjuð viðbragðsáæltun Norrænu, og búið að afmarka hluta af skipinu fyrir þetta. Þessi hópur er bara þar og ekki í samneyti  við aðra farþega,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá Almannavörnum.