Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Upplýsingafundur almannavarna í dag

14.07.2020 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Boðað hefur verið til upplýsingafundar almannavarna klukkan 14 í dag. Þar verður farið yfir stöðu mála varðandi opnun landamæra og COVID-19 hér á landi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu, Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðastjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, verða á fundinum og svara spurningum fjölmiðla.

Íslensk erfðagreining er hætt að sjá um skimanir á landamærunum en veitir Landspítalanum aðgang að tækjum og tólum til áframhaldandi greiningar sýna. Landspítalanum tókst ekki að koma upp búnaði í tæka tíð, eftir að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tilkynnti í síðustu viku að fyrirtæki hans myndi hætta skimunum fyrir íslensk stjórnvöld frá og með deginum í dag.

Áslaug Arna Sigurbjörsdóttir dómsmálaráðherra tilkynnti í gær að hún hafi framlengt gildandi ferðatakmarkanir frá 15. júlí og afnumið takmarkanir gagnvart íbúum fjórtan ríkja sem Evrópusambandið hefur skilgreint sem örugg.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að Þjóðverjar og Norðurlandabúar, að Svíum undanskildum, sleppi líklega við skimun á landamærunum samkvæmt nýjum lista yfir örugg lönd sem hann kynnir á næstu dögum. Þar með fækkar ferðamönnum sem þurfa að fara í skimun.

Upplýsingafundurinn hefst klukkan 14 í húsakynnum Landlæknisembættisins í Katrínartúni. Sýnt verður beint frá fundinum í Sjónvarpinu og hér á vefnum. Einnig verður útvarpað frá fundinum á Rás 2.