Tveggja daga verkfall á Herjólfi hafið

14.07.2020 - 07:43
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Allt útlit er fyrir að Herjólfur sigli hvorki í dag né á morgun. Tveggja daga verkfall undirmanna á Herjólfi hófst á miðnætti og stendur í tvo daga. Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu útgerðar Herjólfs og Sjómannafélags Íslands, verkalýðsfélags sjómannanna.

Undirmenn á Herjólfi fóru í eins dags verkfall í síðustu viku og fara í þriggja daga verkfall í næstu viku ef ekki semst í kjaradeilunni fyrir þann tíma. 

Herjólfur ohf. setti aukaferðir í áætlun sína í gær og aftur á fimmtudag þegar þetta verkfall er afstaðið. 

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ekki væri hægt að semja á grundvelli þeirrar kröfugerðar sem Sjómannafélag Íslands hefði gert. Ekki væri hægt að draga úr vinnuframlagi um 25 prósent og greiða áfram sömu laun.

Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, sagði í samtali við fréttastofu að ekkert væri að gerast í viðræðum. Enginn fundur hefði verið boðaður og ekkert hefði heyrst í forsvarsmönnum útgerðar Herjólfs í gær. Hann sagði að kröfur undirmanna væru óbreyttar og baráttan héldi áfram.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi