Rúmlega 59.000 ný smit í Bandaríkjunum

14.07.2020 - 04:52
epa08540454 An ambulance is parked outside the emergency center of Houston Methodist Hospital at the Texas Medical Center amid the coronavirus pandemic in Houston, Texas, USA, 11 July 2020. COVID-19 cases continue to surge across Texas.  EPA-EFE/AARON M. SPRECHER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rúmlega 59.200 kórónuveirusmit voru greind í Bandaríkjunum síðasta sólarhringinn, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans í Baltimoreborg í Maryland, og 411 dauðsföll af völdum COVID-19. Smitunum fjölgar því enn nánast jafn hratt og síðustu daga, og nálgast staðfest tilfelli 3.4 milljónir.

Fjöldi dauðsfalla hefur hins vegar verið nokkru lægri síðustu daga en hann var til skamms tíma. Óttast er að sú jákvæða þróun eigi eftir að snúast upp í andhverfu sína á næstu dögum, þegar áhrif hinnar miklu fjölgunar smittilfella fara að skila sér af fullum þunga.

Flestir veikjast á Sólskinsbeltinu

Verst hefur ástandið verið í hinu svokallaða Sólskinsbelti, sem teygir sig yfir gjörvalla suðurströndina, allt frá Flórída til Kaliforníu. Yfir 15.000 tilfelli greindust í Flórída sunnudegi til mánudags, fleiri en í nokkru öðru ríki á einum degi.

Hröð útbreiðsla veirunnar síðustu vikur hefur leitt til þess að sum ríki, sem höfðu slakað mjög á öllum takmörkunum vegna farsóttarinnar hafa nú hert reglurnar á nýjaleik. Dæmi um það er Kalifornía, þar sem ríkisstjórinn Gary Newsom fyrirskipaði í gær lokun allra innanhússamkomustaða, svo sem veitingastaða, öldurhúsa, kvikmyndahúsa, hárgreiðslustofa og bænahúsa hvers konar. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi