Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimsækir Surtsey fimmtugasta árið í röð

14.07.2020 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun - Facebook
Níu manna hópur er nú staddur í Surtsey. Um er að ræða árlegan líffræðileiðangur þar sem unnið er að rannsóknum, vöktun á lífríki eyjarinnar og sorphreinsun. Einn leiðangursmannanna, skordýrafræðingurinn Erling Ólafsson, fer nú til eyjarinnar fimmtugasta árið í röð.

Surtsey myndaðist í eldgosi á árunum 1963 til 1965 og var svæðið friðlýst sem friðland strax í kjölfarið. „Friðland er afmarkað landsvæði sem ákveðið hefur verið með lögum að vernda, til dæmis út af sjaldgæfum tegundum lífvera sem eru í hættu eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt,“ segir á vef Umhverfisstofnunar. Af þessum ástæðum er almenningi óheimilt að fara út í eynna án leyfis stofnunarinnar. Vísindamenn fara hins vegar nokkuð reglulega í rannsóknarleiðangra út í Surtsey. 

Að þessu sinni eru átta leiðangursmannanna vísindamenn. Einnig er landvörður með í för. Enginn þeirra hefur komið jafn oft í eynna og Erling.  Hann hefur farið yfir 50 sinnum, þar af nú 50 sinnum í röð. Borgþór Magnússon, plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, hefur þó farið árlega út í eyna um áratugaskeið.

Mynd með færslu
Erling Ólafsson er í Surtsey í fimmtugasta sinn.

Hópurinn fór með þyrlu í eyjuna í gær. Hann ætlar að vera þar fram á fimmtudag. „[Hópurinn tók] strax eftir miklum landslagsbreytingum þar sem jarðvegur hefur skolast úr hlíðum og út í haf en það hefur myndað sandstrendur á austanverðri eynni. Sandstrendur voru áður algengar í Surtsey en undanfarin ár hefur eyjan verið stórgrýtt á alla kanta,“ segir í færslu á vef Umhverfisstofnunar. 

Þeir sem hafa áhuga á að skoða myndir frá leiðangrinum geta fylgst með Instagram-reikningi Náttúruverndar næstu daga. 

 

Mynd með færslu
Fjaran í Surtsey hreinsuð. Myndin var tekin í rannsóknarleiðangri 2016.