Heilbrigðisstarfsfólk í Frakklandi fær launahækkun

14.07.2020 - 05:41
epaselect epa08479218 Members of the Attac movement (in blue) perform a parody  song as they join a demonstration with healthcare workers  demanding more funding and better work conditions for hospital staff from the government, in front of Robert Debre hospital in Paris, France, 11 June 2020.  EPA-EFE/YOAN VALAT
Heilbrigðisstarfsfólk og bláklæddir félagar í ATTAC-samtökunum krefjast bættra kjara fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aukinna fjárveitinga til sjúkrahúsa fyrir framan Robert Debre sjúkrahúsið í París Mynd: epa
Fulltrúar franska ríkisins undirrituðu í gær samninga við fjölmörg stéttarfélög heilbrigðisstarfsfólks sem starfar hjá hinu opinbera, eftir sjö vikna samningaþref. Samningarnir kosta franska ríkið um 8 milljarða evra, um 1.280 milljarða íslenskra króna, og eru sagðir tryggja launahækkun upp á 183 evrur á mánuði að meðaltali, eða rúmar 29.000 krónur.

 

„Sögulegur atburður“

Nýskipaður forsætisráðherra Frakklands, Jean Castex, sagði undirritun samninganna sögulegan atburð fyrir franskt heilbrigðiskerfi. „Fyrst og fremst er þetta viðurkenning á mikilvægi þeirra sem hafa verið í framlínunni í baráttunni við þennan heimsfaraldur," sagði Castex þegar samingarnir voru undirritaðir með viðhöfn.

Vildu meira en húrrahróp og klapp á bakið

Í Frakklandi hafa rúmlega 30.000 dauðsföll verið rakin til COVID-19 í Frakklandi og staðfest smit eru yfir 200.000. Heilbrigðisstarfsfólk þar í landi, eins og víða annars staðar, hefur verið hyllt sem hetjur fyrir dug sinn og djörfung í slagnum við COVID-19, og almenningur hefur margoft tjáð þeim þakklæti sitt opinberlega með ýmsum hætti.

Það vildi hins vegar ekki bara fá hrós og klapp á bakið fyrir hættulegt erfiðið, heldur líka hærri laun og auknar fjárveitingar til reksturs sjúkrahúsa. Það gekk þó ekki þrautalaust og því efndu þau ítrekað til mótmæla til að leggja áherslu á kröfur sínar, þessar sjö vikur sem viðræðurnar stóðu yfir.

Langmest til hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og almenns starfsfólks

Af evrumilljörðunum átta sem lagðir verða út til að bæta kjör heilbrigðisstarfsfólks fer tæplega hálfur til lækna, sem vinna aðeins hjá hinu opinbera. Sjö og hálfur milljarður fer hins vegar í að hækka laun hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, fólks sem starfar við umönnun aldraðra og annars starfsfólks opinbera heilbrigðiskerfisins, sem mest hefur mætt á í faraldrinum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi