Hamrén: „Sögðu allir að ég væri galinn“

epa07996288 Iceland's Erik Hamren during the UEFA Euro 2020 qualifier Group H soccer match between Turkey and Iceland in Istanbul, Turkey, 14 November 2019.  EPA-EFE/TOLGA BOZOGLU
 Mynd: EPA

Hamrén: „Sögðu allir að ég væri galinn“

14.07.2020 - 08:43
Erik Hamrén, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, er í löngu viðtali við heimasíðu Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, í dag. Þar fer hann yfir árin tvö sem hann hefur verið landsliðsþjálfari Íslands og vonir sínar og væntingar.

Erik Hamrén var kynntur sem landsliðsþjálfari þann 8. ágúst 2018 eftir að Heimir Hallgrímsson lét af störfum. 

„Það sögðu allir að ég væri galinn,“ segir Erik um ákvörðun sína að taka við Íslandi. Hann var varaður við því að leiðin gæti aðeins legið niður á við hjá íslenska liðinu eftir fordæmalausa velgengni árin á undan. Erik hundsaði viðvaranirnar og sér ekki eftir neinu. 

Hann ræðir árin á Íslandi við FIFA.com í dag.

Talið berst fyrst að ástandinu sem ríkt hefur í heiminum síðustu misseri.

„Til allrar hamingju hefur fjölskylda mín verið heilbrigð og þótt eitthvað hafi vantað án fótboltans get ég ekki kvartað,“ segir hann.

„Ég veit að fólk er að deyja vegna sjúkdómsins og margir kveljast og ég er í forréttindastöðu. Það hafa verið jákvæðir þættir hjá mér líka; ég hef getað spilað meira golf en ég er vanur. Þrátt fyrir allt hef ég samt saknað fótboltans mikið og ég hlakka til að byrja aftur af alvöru.“

Góður möguleiki á sæti á EM

Erik segist ánægður með árin sín tvö í þjálfarasæti Íslands. Byrjunin hafi vissulega verið býsna strembin með leikjum við Belgíu, Frakkland og Sviss í Þjóðadeild UEFA, en það hafi verið mikilvægur tími fyrir hann til að kynnast leikmönnunum.

„Okkur gekk fínt í undankeppni EM. Við vonuðumst til að berjast um efstu tvö sætin en Tyrkir gerðu vel í að taka fjögur stig af Frökkum, og það voru stigin sem skildu okkur að í lokin. Við eigum ennþá möguleika í umspilinu, góðan möguleika þótt það verði erfitt. Við vitum að það mun ráðast af smáatriðum og ef við náum þeim réttum er ég bjartsýnn.

Hversu erfitt fannst þér að taka við sem landsliðsþjálfari annarrar þjóðar eftir að hafa stýrt Svíþjóð? Þurftirðu að aðlagast mikið?

„Margt er svipað en líka margt ólíkt þegar þetta er ekki þín eigin þjóð. Tungumálið er augljós munur, jafnvel þó það sé auðvelt fyrir mig að ræða við leikmennina á ensku. Það er öðruvísi að þjálfa í öðru landi og ég efast ekki um að leikmenn hafi þurft að aðlagast líka. En ég hafði þegar þjálfað í Danmörku og Noregi og vann í Suður-Afríku [sem tæknilegur stjóri Mamelodi Sundowns] í tíu mánuði áður en ég tók við þessu starfi. Ég tel mann bæta sig sem þjálfari og manneskja við það að vinna erlendis. Þetta er upplýsandi, bæði fótboltalega og í lífinu.“

Hjálpaði það að Ísland hafði nýlega náð miklum árangri undir stjórn annars Svía?

„Ég held það. Þeir upplifðu góða tíma með Lars og við sjáum fótboltann á svipaðan hátt. Ég held að KSÍ hafi haft það í huga þegar mér var boðið starfið.“

Leitaðirðu ráða hjá Lars áður en þú þáðir tilboðið?

„Ekki áður en ég tók starfinu en við höfum rætt saman síðan. Ég var í Suður-Afríku þegar tilboðið barst, og þótt ég hafi notið tímans þar við öðruvísi starf í öðrum heimsluta, þá langaði mig aftur til Evrópu og ég saknaði þjálfunarinnar. Ég gerði mér grein fyrir því að þetta væri áskorun því það væri ekki auðvelt að viðhalda því sem Ísland hafði afrekað árin á undan. Flestir sögðu mig galinn að taka starfinu, sögðu að hlutirnir gætu aðeins versnað. En jafnvel þó það verði erfitt að leika eftir það sem þetta lið gerði á EM 2016 og að verða svo á undan Króatíu, Úkraínu og Tyrklandi í erfiðum undanriðli HM, þá sá ég áskorun og það gerði mig spenntan. Ég hugsaði strax: Við getum þetta.“

Stærsta afrek mitt ef Ísland kemst á EM

Ein af áskorununum sem blasti við Erik var hækkandi meðalaldur íslenska liðsins. Gullkynslóðin var að skríða yfir þrítugt og sumir komnir á síðari hluta fertugsaldursins. Við Erik blasti því að endurnýja hópinn að einhverju leiti.

„Ég hef verið ánægður með hvernig leikmenn hafa brugðist við. Þetta var einn af þeim hlutum sem ég var að brasa með; hafa eldri leikmennirnir enn gæðin og hungrið til að afreka meira með liðinu. Það sem ég hef séð er að þeir hafi það. Mér líkar viðhorf þeirrra mjög. Eina vandamálið sem ég hef mætt, sem fyrri þjálfarar glímdu líka við, er fjöldi meiðsla lykilmanna. Fólk tjáði mér að Ísland hafi nánast spilað með sama byrjunarlið í fjögur ár og slíkur stöðugleiki væri mikilvægur. Það hefur ekki verið raunin síðustu tvö ár og að glíma við meiðsli lykilmanna er mun strembnara fyrir litlu þjóðirnar þar sem breiddin er ekki jafnmikil. Á móti hefur það gert okkur kleift að prófa yngri leikmenn og sumir þeirra hafa gripið gæsina. Það er björt framtíð þegar gullkynslóðin leggur skónum.“

Þú hefur átt góðu gengi að fagna í undankeppni EM í gegnum tíðina og komið Svíþjóð í tvígang í lokakeppnina. Yrði það stærsti sigur þinn að koma Ísland á næsta EM?

„Sennilega, já. Einfaldlega vegna stærðarmunsins á þessum tveimur löndum og vegna þess að svotil allir sögðu mér að það væri slæm hugmynd að taka við þjálfun Íslands. Fyrir jafnlitla þjóð og Ísland að komast á þrjú stórmót í röð væri stórkostlegt og já, ég hugsa að það væri mitt stærsta afrek í þjálfun,“ segir Erik Hamrén.