Engin þeirra sem létust var í bílbelti

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa tilgreinir í nýlegri skýrslu fimm orsakaþætti banaslyss sem varð við Núpsvötn í desember árið 2018. Þrjár létust í slysinu, tvær konur á fertugsaldri og ellefu mánaða gamalt stúlkubarn.

Rannsóknarnefnd tiltekur í skýrslunni að ökumaður hafi ekki virt hámarkshraða og að þær sem létust voru ekki með öryggisbelti spennt eða í barnabílstól. Þá gaf vegrið á brúnni undan þar sem bil var vegna þensluraufar og sennilega var veggrip á brúnni verra en ella vegna ísingar.

Bílstjórinn missti stjórn á jeppa sem hann ók þegar hann kom inn á brúna yfir Núpsvötn. Jeppinn fór upp á vegrið hægra megin og fór fram af brúnni þegar vegriðið losnaði frá brúnni. Jeppinn lenti í grýttum aur þar fyrir neðan. 

Vegrið losnaði við þenslurauf

Brúin yfir Núpsvötn er 420 metra löng einstefnubrú með tveimur útskotum í hvora akstursátt. Til stendur að byggja nýja brú í hennar stað í ár, nokkuð sem rannsóknarnefnd samgönguslysa mælist með að verði staðið við. Vegna þess hversu löng brúin er þá eru þensluraufar á henni til að vinna gegn hitabreytingum, svo að yfirlag brúarinnar springi ekki eða brotni upp. Við þessar þensluraufar eru bil í vegriðinu. Þegar bíllinn fór upp á vegriðið og rann eftir því nokkra leið losnaði vegriðið frá brúnni þar sem er bil í því við þenslurauf. 

Þær sem létust sátu allar í öftustu sætaröð af þremur. Farþegi í framsæti og tveir farþegar í miðröðinni voru í bílbeltum og slösuðust alvarlega. Ökumaðurinn var ekki í bílbelti. Hann slasaðist alvarlega. Hraðaútreikningur gefur til kynna að bíllinn hafi verið á 114 kílómetra hraða fyrir slysið, með tilliti til skekkjumarka gæti hraðinn hafa verið á bilinu 106 til 122 kílómetrar á klukkustund. Bíllinn var tólf ára gamall en með fulla skoðun og á nýlegum negldum vetrardekkjum. Bíltæknirannsókn á jeppanum eftir slysið leiddi ekkert í ljós sem skýrt getur orsakir slyssins. 

Í ábendingum rannsóknarnefndar samgönguslysa er bent á að hraðakstur sé ein af algengustu ástæðum banaslysa í umferðinni, sem og að fólk noti ekki bílbelti. Nefndin ítrekar mikilvægi þess hvort tveggja að stilla hraða í hóf og nota bílbelti eða sérstakan öryggisbúnað.

Morgunblaðið fjallaði fyrst um niðurstöður skýrslunnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi