Veitir útrás fyrir sterkar skoðanir á Instagram

Mynd: Hrafnhildur Össurardóttir / Facebook

Veitir útrás fyrir sterkar skoðanir á Instagram

13.07.2020 - 11:33
Egg og beikon er versti morgunmaturinn, það nennir enginn að heyra hvað þig dreymdi og það er ekkert nema sýndarmennska að borða ostrur, eru meðal þeirra skoðana sem er að finna á Instagramreikningnum Sterkar skoðanir sem hefur notið mikilla vinsælda upp á síðkastið.

Það er Hrafnhildur Össurardóttir sem stofnaði reikninginn, en hann hefur sankað að sér rúmlega tíu þúsund fylgjendum á innan við mánuði. Hrafnhildur, sem var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, segist aldrei hafa búist við svona mörgum þegar hún ákvað að stofna reikninginn sem stað til þess að fá útrás fyrir sínar eigin sterku skoðanir.

Fyrsta skoðunin sem Hrafnhildur póstaði var um brauðskinku, sem henni finnst sjálfri ógeðsleg, en hún segir það óþolandi að ekki sé hægt að kaupa sér smurt rúnstykki í bakaríi án þess að það sé á því brauðskinka. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Sterkar skoðanir (@sterkarskodanir) on

Framboðið af skoðunum var hins vegar meira en Hrafnhildur bjóst við og hún fór fljótlega að fá innsendar skoðanir. „Ég hef ekki póstað minni eigin skoðun lengi, fólk virðist hafa mjög sterkar skoðanir en vissulega mis gáfulegar og mis viðeigandi fyrir miðilinn,“ segir hún. Margir hafi greinilegt haft þörf fyrir þetta og einhverjir hafa jafnvel haft samband og sagt að hún hafi leyst skoðanaskrímsli úr læðingi hjá þeim og þau geti ekki hætt. 

Skoðunin sem fór með reikninginn á flug var að þeir sem keyri hægt á vinstri akrein ættu að skila ökuskírteininu. Það virtist vera skoðun sem margir voru sammála, fylgjendum fór að fjölga hratt og Hrafnhildur fór að fá sendar inn fleiri skoðanir. Hún segir sennilega vera til endalaust af skoðunum til að koma á framfæri og hún neyðist sennilega til þess að halda áfram að setja inn skoðanir á hverjum degi. 

Reikningurinn er hins vegar ekki staður fyrir hvaða skoðanir sem er en Hrafnhildur segir pólitískt efni ekki eiga heima þar. „Þetta er ekki kommentakerfið, þú getur ekki látið hvað sem er út úr þér þarna,“ segir hún. Fólki sé auðvitað velkomið að hafa ýmsar skoðanir en hún muni ekki birta pólitískar skoðanir og skoðanir þar sem talað er illa um ákveðnar manneskjur eða vörumerki. 

„Þá eru komin leiðindi og markmið síðunnar er að vera akkúrat öfugt við leiðinleg, þetta á að vera létt og skemmtilegt. Þetta er staður fyrir ómerkilegar og tilgangslausar skoðanir eins og um Cheerios og Cocoa Puffs og ananas á pizzu.“

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Sterkar skoðanir (@sterkarskodanir) on

Hrafnhildur var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Viðtalið við hana má heyra í spilaranum hér efst á síðunni.