Tæp 60.000 smit greindust í Bandaríkjunum í gær

13.07.2020 - 01:40
epa08542564 People enjoy a warm day at the beach in Miami Beach, Florida, USA, 12 July 2020. Florida reports 15,300 new Coronavirus cases, a record for one day anywhere in the US.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
Fjölmennt var á ströndinni í Miami Beach í góða veðrinu í gær, og það átti við um flestar strendur Sólskinsríkisins, eins og Florida er stundum kallað. Ron deSantis, ríkisstjóri, hefur verið gagnrýndur fyrir að gera of lítið til að hemja útbreiðslu veirunnar. Ekki er grímuskylda í ríkinu og litlar sem engar samkomutakmarkanir í gildi. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rétt tæplega 60.000 kórónaveirusmit greindust í Bandaríkjunum síðasta sólarhringinn, samkvæmt gögnum Johns Hopkins-háskólans í Maryland. Þar með eru staðfest tilfelli orðin ríflega 3,3 milljónir talsins þar í landi. Töluvert færri dauðsföll voru rakin til COVID-19 vestra þennan sólarhring en dagana á undan, eða 442. Alls eru staðfest dauðsföll af völdum sjúkdómsins þá orðin 135.171 í Bandaríkjunum.

Þótt dauðsföllum hafi fækkað milli daga er óttast að þeim muni fjölga verulega á næstu dögum og vikum, þegar horft er til þess ógnarhraða sem veiran hefur verið að dreifa sér upp á síðkastið. Verst er ástandið í Texas, Kaliforníu og Flórída, en í síðastnefnda ríkinu greindust yfir 15.000 tilfelli síðasta sólarhringinn, eða um fjórðungur allra nýsmita í landinu. Aldrei áður hafa jafn mörg smit greinst í einu ríki Bandaríkjanna á einum degi. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi