Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ný kynslóð byggðalínu tengir Norður- og Austurland

13.07.2020 - 08:46
Landsnet leggur í sumar fyrsta hluta nýrrar byggðalínu milli Austurlands og Norðurlands. Stálmöstur koma í stað tréstaura sem eru orðnir yfir 40 ára gamlir. Bosnískur verkstjóri hefur aldrei séð annað eins og undrast að gamla línan sé ekki löngu hrunin.

Skammt frá Möðrudal á Fjöllum hittum við á starfsmenn bosníska línufyrirtækisins Elnos. Þeir eru að hlaða mastraefni á bíla, efni í eitt mastur fer á hvorn bíl. Svo er haldið með mastrið ósamsett á sinn stað meðfram gömlu línunni. Þetta gæti orðið sjö milljarða króna framkvæmd og tilgangurinn er að tryggja örugga dreifingu rafmagns.

„Kröflulína þrjú er fyrsti hluti af nýrri kynslóð byggðalínu sem Landsnet stendur núna að. Línan er 122 kílómetrar. Liggur frá Kröflu og niður að Fljótsdalsstöð. Í línunni eru 328 möstur. Við kaupum stálmöstur frá Tyrklandi og við erum að versla um 2.500 tonn af stáli í möstur. Svo höfum við keypt leiðara frá Indlandi og ætli það fari ekki um 1.500 tonn af leiðara í þessa línu,“ segir Daníel Scheving Hallgrímsson, verkefnastjóri Landsnets.

Mjög erfitt og hættulegt starf

Línumennirnir vinna í tveimur hópum og hvor hópur setur saman tvö möstur á dag. Hvert mastur er svo öflugt að það kemur í staðinn fyrir fimm tréstaurastæður. Verkstjórinn varð undrandi þegar hann sá gömlu línuna, krossuð tréstauralína upphaflega lögð 1978, ennþá í notkun sem meginflutningslína. „Ég skil ekki hvernig þessi lína hefur lifað af þangað til núna því veturnir hér eru mjög harðir og ég skil ekki hvernig þessi möstur hafa þola það í allan þennan tíma,“ segir Nedeljko Vujičić, staðarstjóri Elnos á Íslandi.

Þrjátíu línumenn vinna við verkið og verða 40 innan skamms. Mikið er lagt upp úr öryggismálum við framkvæmdina enda þarf að hífa þungt. „Já, þetta er mjög erfitt starf og mjög hættulegt fyrir strákana. Við þurfum línumenn með reynslu til að geta lokið verkinu,“ segir Nedeljko Vujičić.

Stóreflis krana þarf til að reisa möstrin sem vega 5-8 tonn. Þau eru 18-30 metra há og allt að sex möstur eru reist á dag. Byrjað verður að hengja upp háspennuvírinn í næsta mánuði og er stefnt að því taka Kröflulínu 3 í notkun fyrir árslok. Næsti áfangi byggðalínunnar er Hólasandslína 3 sem styrkir raforkuflutning á milli Kröflu og Akureyrar.