Niðurstöðurnar sýna að stjórnarandstaðan á fullt erindi

13.07.2020 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir að niðurstöður forsetakosninganna í Póllandi sýni meðal annars að það sé enn eldur í glæðum hjá stjórnarandstöðunni þrátt fyrir að ekki sé útlit fyrir miklar breytingar á næstunni. Andrzej Duda var í gær endurkjörinn forseti Póllands.

Búið er að telja 99,98% atkvæða og samkvæmt nýjustu tölum fékk Duda 51,12% og keppinautur hans Rafal Trzaskowski 48,88%. Það er því afar mjótt á munum. Pawel bendir á að það breyti litlu, Duda hafi sama umboð fyrir því.  „Hinn pólitíski veruleiki er nú áfram sú staða að Lög og réttlæti eru bæði með hreinan meirihluta í þinginu og forsetaembættið. Það er staðan og verður þannig næstu þrjú ár því að það er dálítill tími til næstu reglulegu þingkosninga,“ segir Pawel. 

Fólk fyrir austan íhaldssamara

Pawel segir að niðurstöður kosninganna sýni að stjórnarandstaðan og Borgaravettvangur, flokkur Trzaskowski, eigi enn fullt erindi. „Það leit þannig út fyrir tveimur mánðum að kosningarnar myndu bara vinnast í fyrri umferð enn þessi staða sýnir að það er ennþá eldur í glæðum hjá stjórnarandstöðunni þó svo að þeir hafi ekki náð að sigra sitjandi forseta í þetta skiptið.“

Þá er athyglisvert að sjá hvernig atkvæðin dreifast, það er nánast hægt að draga línu í gegnum Pólland á milli þeirra svæða þar sem meirihluti kaus Trazaskowski annars vegar og Duda hins vegar. Pawel segir að það hafi lengi verið svo. „Fólk fyrir austan á það til að styðja íhaldsamari frambjóðendur á meðan íbúar fyrir vestan eiga til að styðja frjálslyndari frambjóðendur.“

Margir vilja breytingar 

Pawel er í Poznan, í vesturhluta Póllands. Hann segir að mikill hiti sé í umræðum í fjölmiðlum og á netinu, en hann verður minna var við pólitískar umræður á götum úti. „Ég veit að fólk allavega á þessu svæði sem ég er á hefði þegið breytingar, enda vann Rafal Trazkowski hér með held ég 70% atkvæða,“ segir hann. Það vildu Pólverjar á Íslandi einnig, nærri 80% þeirra kusu Trazkoswski. 

Gagnrýni á sitjandi stjórnvöld lýtur meðal annars að breytingum sem hafa verið gerðar að því er virðist til að þau geti fest enn í sessi völd sín. Pawel segir að ótti stjórnarandstæðinga sé að nú verði haldið áfram á sömu braut. „En ég vona að svo verði ekki. Ég vona að hinn nýkjörni forseti standi undir nafni og standi heldur vörð um stjórnskipan ríkisins og fjölhyggjuna en tíminn verður aðeins að leiða í ljós hvernig það verður,“ segir Pawel. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi