Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hundrað ára einsemd - Gabriel García Márquez

1975, Colombia --- Nobel-prize winning author Gabriel Garcia Marquez sits with a copy on his book One Hundred Years of Solitude) open on his head. --- Image by © Colita/CORBIS
 Mynd:

Hundrað ára einsemd - Gabriel García Márquez

13.07.2020 - 08:52
Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márques í þýðingu Guðbergs Bergssonar er bók vikunnar þessu sinni. Hundrað ára einsemd kom fyrst út í Argentínu árið 1967, árið eftir í París og síðan beinlínis út um allan heim og náði gríðarlegum vinsældum.

Bókin kom út á íslensku árið 1978 fjórum árum áður en höfundurinn Gabriel García Márques fékk Bókmenntaverðlaun Nóbels 1982. Þeir eru margir sem muna svefnlausar nætur vegna þess að ekki reyndist mögulegt að hætta að lesa þess litríku og margslungnu sögu um Búendíanna í þorpinu Macondo. 

Í þættinum rifja þau Hólmfríður Garðarsdóttir prófessor í spænsku við Háskóla Íslands og Einar Már Guðmundsson rithöfundur upp þegar þau í fyrsta sinn lásu hina frægu upphafssetningu bókarinnar og gátu síðan ekki hætt.

„ Á meðan Aurelíano Búendía liðþjálfi stóð andspænis aftökusveitinni átti hann eftir að minnast löngu liðna kvöldsins, þegar faðir hans leiddi hann sér við hönd og sýndi honum ísinn.“

Einnig er í þættinum rætt um töfraraunsæið en það bókmenntafræðilega hugtak tengist skáldsögunni Hundrað ára einsemd órofaböndum þótt sá frásagnarstíll að blanda draugum, fyrirboðum og fylgjum inn í nauða hversdagslega atburðarás hafi væntanlega verið við lýði frá því að manneskjur tóku að segja hver annarri sögur.

Margt hefur verið skrifað og hugsað um skáldsöguna Hundrað ára einsemd og er í þættium tæpt á ýmsum túlkunum. Til dæmis hefur verið litið á söguna sem táknsögu um sögu Suður - Ameríku, sögu landnáms og frumbyggja, uppbyggingar og niðurrifs, baráttu og undirokunar og auðvitað ásta og væntinga, þroska og tækninýjunga en sagan spannar um það bil heila öld og segir frá 7 kynslóðum Búendía. 

Bókinni hefur jafnvel verið líkt við kafla úr Genesis eða sköpunarsögu Biblíunnar en ættfaðirinn Jose Arcadío Búendío leiðir fólk sitt yfir fjöll og farartálma uns það sest að á fenjasvæði og reisir þropið Macondo þar sem áður var ekkert.  Þrátt fyrir þessa tengingu við hina helgu bók er katólskan – þetta miðlæga vald í allri menningarsögu Rómönsku Ameríku frá tímum landafundanna - einhvernveginn fjarverandi í verki Márquez. Klukkum er vissulega hringt og einhverjir fara til kirkju, en presturinn er galinn og syndina og skömmina sem kirkjan prédikar jafnan er ekki að finna í textanum. Frjálsræði er áberandi sem kannski er endurómur hugmynda 68 kynslóðarinnar.  

Í svo mikilli ættarsögu er dauðinn alltaf nálægur og allt endar í honum. Eigi að síður hefur því verið haldið fram að Márquez skapi unaðsreit Ameríku í frásögn sinni. Sælureit sem þó þjáist vegna arðráns og nái ekki snúa málum sér í hag.

Aðrir fræðimenn takast á um hvort bókin endurspegli hringrás tímans, eða endurspegli tilvistarlega bölsýni, eða hvort um sé að ræða ógæfusögu – harmræna birtingarmynd samfélags sem á sér ekki möguleika. 

Það eru orð að sönnu að Hundrað ára einsemd er ein þeirra stórvirkja heimsbókmenntanna sem allir ættu að lesa einhvern tíma á ævinni.

Mynd:  /