Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hjólaði frá Skotlandi til Grikklands vegna COVID-19

13.07.2020 - 23:46
Mynd með færslu
 Mynd: cc
Grikki sem var í háskólanámi í Skotlandi ákvað að hjóla heim, um 3.500 km leið, eftir að allar flugleiðir lokuðust vegna kórónuveirunnar.

CNN greinir frá og segir Grikkjann Kleon Papadimitriou þó ekki hafa verið öruggan um að komast alla leið.

„Ég er eiginlega fyrst nú að átta mig á hversu fífldjörf þessi áætlun var,“ segir Papadimitriou sem var 48 daga á leiðinni. „Ég lærði mikið um sjálfan mig á ferðalaginu, um takmarkanir mínar, styrkleika og veikleika. Ég vona líka að ferðalagið hafi hvatt að minnsta kosti einhvern einn til að yfirgefa þægindaramman og reyna eitthvað nýtt, eitthvað stórt.,“ bætir hann við.

Papadimitriou, sem í haust hefur nám í verkfræði á þriðja ári við Aberdeen háskóla, tók að leita að flugmiða heim til Grikklands í lok mars. Hann vonaðist á þeim tíma til að komast heim áður en kórónuveirufaraldurinn hæfist fyrir alvöru. Flestir vina hans höfðu þá þegar yfirgefið skólasvæðið, en hann dvaldi áfram til að missa ekki úr neina tíma. Á sama tíma bókaði hann þó í þrígang flug heim, en öllum flugferðunum var aflýst.

Lofaði að setja upp app svo fjölskyldan gæti fylgst með

„Þann fyrsta apríl þá vissi ég að ég myndi að minnsta kosti þurfa að vera næsta mánuðinn í sóttkví í Aberdeen,“ segir Papadimitriou. Það var þá sem hann fékk hugmyndina að hjóla heim. 

Hann hafði keppt í hjólreiðum árið áður og var í ágætis formi. Þegar hann greindi fjölskyldu og vinum síðan frá áformum sínum lét pabbi hans hann lofa að hann myndi setja upp app sem gerði fjölskyldunni kleift að fylgjast stöðugt með ferðalaginu. 

Þann 10. maí lagði Papadimitriou svo af stað með svefnpoka, tjald, niðursoðnar sardínur, hnetusmjör og brauð í hjólatöskunni.

Næstu vikur hjólaði hann á 55-120 km á daglega og tjaldaði iðullega úti á næsta túni. Á stöku stað leitaði þó hann uppi vini sem leyfðu honum að komast í sturtu og buðu jafnvel upp á rúm yfir nóttina.

Þann 27. júní, 48 dögum eftir að hann lagði af stað var hann svo loks kominn heim til Grikklands. Þar beið hans fjölskylda og vinir, sem og hópur fólks sem Papadimitriou þekkti ekki en sem höfðu fylgst með ferðalagi hans í gegnum samfélagsmiðla.

„Þetta var tilfinningaþrungin stund,“ segir hann og kveðst telja foreldra sína hafa verið fegna að sjá sig.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir