Hádegisfréttir: Reynir á þolmörk landamæraskimunar

13.07.2020 - 12:09
Andrzej Duda er endurkjörinn forseti Póllands til næstu fimm ára með rúmlega 51 prósenti atkvæða. Tæp 80 prósent Pólverja á Íslandi kusu mótfambjóðandann Rafal Trzaskowski.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12:20.

Sýnataka á Keflavíkurflugvelli er komin að þolmörkum vegna aukinnar eftirspurnar um að koma til landsins. Stjórnvöld funda í dag um hvernig bregðast eigi við.

Reglugerð heilbrigðisráðherra um heimkomu-smitgát íslenskra ríkisborgarar, og fólks sem býr hér á landi, við komuna frá útlöndum, tók gildi í dag. Fólk sem velur að fara í sýnatöku við komuna til Íslands þarf að takmarka mjög samneyti við annað fólk næstu fimm daga á eftir, eða þar til niðurstöður úr síðari sýnatöku liggja fyrir.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin tilkynnti í gær að fleiri kórónuveirutilfelli hefðu greinst í heiminum síðasta sólarhringinn en nokkru sinni fyrr. 

Hátt í tíu milljónir barna kunna að flosna upp úr skóla vegna niðurskurðar og aukinnar fátæktar af völdum kórónuveirufaraldurins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Save The Children.

Engir fundir eru boðaðir í kjaradeildu undirmanna á Herjólfi í dag. Að óbreyttu hefst verkfall því á miðnætti og stendur í tvo sólarhringa.  Deilan er í hnút og samningsaðilar ræddust ekkert við um helgina. 

 

Álagið á íslenskar fjölskyldur jókst til muna þegar farsóttin var í hámarki. Verkefnin færðust inn á heimilin og streita varð meiri, sérstaklega meðal kvenna. Þetta sýna frumniðurstöður nýrrar rannsóknar um líðan fjölskyldna á tímum kórónuveirunnar. 

Forseti Namibíu segir flokk sinn enga beina styrki hafa fengið frá þeim sem tengjast Samherjaskjölunum. Þarlent dagblað segir flokkinn hafa fengið milljóna greiðslur frá Samherja.

Hrun varð í sölu minkaskinna í kjölfar heimsfaraldursins og talsmaður íslenskra minkabænda segir útlitið afar svart. Ríkisstjórnin samþykkti nýlega að styrkja greinina um 80 milljónir króna.

Alþjóða íþróttadómstóllinn sneri í morgun við tveggja ára banni Manchester City frá Evrópukeppnunum í fótbolta. Evrópska knattspyrnusambandið hafði sett City í tveggja leikja bann í febrúar vegna brota á reglum sambandsins um fjármál fótboltaliða.

 

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi