Forsetinn sver af sér styrki tengda kvótahneyksli

Mynd með færslu
 Mynd: The Namibian
Hage Geingob, forseti Namibíu, sór í gær fyrir að hann eða flokkur hans hefði fengið nokkra beina styrki sem tengdust meintum glæpum eða spillingu sem fjallað var um í Samherjaskjölunum. Dagblaðið The Namibian segir gögn sýna að greiðslur frá Samherja hafi farið inn á reikning sem flokkurinn stjórnar. Lögmaður spillingarlögreglunnar sagði fyrir dómi í síðustu viku að hluti fjárins sem sakborningar fengu hafi verið notað til að fjármagna kosningabaráttu Swapo, stjórnarflokksins í Namibíu.

Sex eru í gæsluvarðhaldi á grundvelli ákæru sem gefin var út í fyrra. Þeim er gefið að sök að hafa þegið greiðslur sem nema 103 milljónum namibíudollara, hátt í milljarð króna, frá útgerðarfélögum í eigu Íslendinga. Þeir vilja losna úr gæsluvarðhaldi og var fjallað um kröfu þeirra á miðvikudag og fimmtudag. 

Þvertók fyrir styrki

Geingob Namibíuforseti boðaði til blaðamannafundar í gær þar sem hann svaraði fullyrðingum lögmanns spillingarlögreglunnar. Hann sagði að Swapo flokkurinn hefði ekki fengið neina beina styrki og það væri ljóst af endurskoðuðum reikningum flokksins. Sophia Shaningwa, framkvæmdastjóri flokksins, tók undir með Geingob. Forsetinn sagði að einhverjir einstaklingar kynnu að hafa þegið greiðslur en að þær hefðu ekki skilað sér til flokksins.

Forsetinn sagði að dregist hefði að setja reglur um hámark sem styrkja má stjórnmálaflokka um. Það hefði ekki gerst fyrr en á síðasta ári. Nú er hámarkið fjórar milljónir Namibíu dollara fyrir innlenda styrki og tvær milljónir vegna styrkja erlendis frá. Hver namibískur dollari nemur rúmlega níu krónum.

Lögmaður spillingarlögreglunnar sagði í síðustu viku að hluti þess fjár sem sakborningar í spillingarmálinu komust yfir hefði verið notaður til að fjármagna kosningabaráttu Swapo.

Segja fé lagt inn á reikning Swapo

Forsíða The Namibian í dag.
Fjallað er um málið í namibíska dagblaðinu The Namibian í dag undir forsíðufyrirsögninni „Samherji Swapo donation puzzle“. Það mætti þýða sem Ráðgátan um Samherjastyrki Swapo. Þar segir að fréttamenn blaðsins hafi komist að því að Samherji hafi greitt fé inn á reikning Swapo. Það stangist á við yfirlýsingu forsetans um að flokkur hans hafi enga beina styrki fengið frá þeim sem tengjast málinu. Blaðið segir að milljónir hafi verið greiddar inn á reikning sem Swapo stjórnar. Blaðamaðurinn sem stýrði rannsókninni segir að Swapo hafi stofnað reikninginn og stýrt honum.

Saklausir uns sekt er sönnuð

Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, eru meðal þeirra ákærðu. Þeir hrökkluðust úr embætti eftir að ásakanir um mútuþægni og spillingu komst upp á yfirborðið síðastliðið haust. Geingob sagðist líta svo á að þeir væru saklausir, þar sem allir ættu rétt á því að vera álitnir saklausir uns sekt þeirra væri sönnuð.

Verjandi Esau sagði í réttarhöldunum fyrir helgi að ein eignanna sem skráð er á ráðherrann fyrrverandi hefði komið honum mjög á óvart. Hann sagði að Esau hefði ekki keypt þá eign og ekki vitað að hún væri skráð á sig. Í frétt The Namibian í dag er hins vegar fullyrt að undirskriftir Esau og eiginkonu hans sé að finna á kaupsamningnum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi