Duda verður áfram forseti Póllands

13.07.2020 - 09:04
Erlent · Pólland · Evrópa
epa08542658 Incumbent President Andrzej Duda speaks for the media at the Presidential Palace in Warsaw, Poland, 12 July 2020. According to initiall exit polls, Polish President Andrzej Duda has won percent 50.4 percent of votes and Civic Coalition candidate and Mayor of Warsaw Rafal Trzaskowski has won 49.6 percent of votes in the second round of presidential elections in Poland.  EPA-EFE/RADEK PIETRUSZKA POLAND OUT
Andrzej Duda, forseti Póllands. Mynd: EPA-EFE - PAP
Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur svo gott sem tryggt sér annað kjörtímabil á forsetastóli. Tölur frá flestum kjördæmum gefa til kynna að Duda hafi sigrað með ríflega tveggja prósentustiga mun.

Forsvarsmenn yfirkjörstjórnar sögðust á blaðamannafundi í morgun ekki geta gefið upp hvenær endanleg úrslit yrðu kynnt. Þau lægju fyrir í níutíu og níu prósent kjördæma, en ekki væri búist við að ótalin atkvæði breyttu miklu.

Samkvæmt tölum kjörstjórnar hefur Duda fengið 51,2 prósent atkvæða, en keppinautur hans Rafal Trzakowski, borgarstjóri Varsjár, 48,8 prósent. Þetta er minnsti munur í forsetakosningum í Póllandi frá falli kommúnismans í landinu árið 1989. Kjörsókn var ríflega 68 prósent. 

Trzakowski hefur enn ekki játað sig sigraðan og stjórnmálafylkingin  Borgaravettvangur sem staðið hefur á bakvið hann, segist nú vera að afla upplýsinga um hugsanlegt misferli á kjörstöðum. Fregnir eru meðal annars um að Pólverjar búsettir erlendis hafi ekki fengið kjörgögn sent í tæka tíð.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi