Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Synja gagnrýnum ljósvakarisa um útvarpsleyfi

12.07.2020 - 04:50
epa08538769 Regina Reyes, ABS-CBN Senior Vice President of Integrated News and Current Affairs, delivers a statement outside the ABS-CBN network headquarters in Quezon City, Metro Manila, Philippines, 10 July 2020. Legislators of the Committee on Legislative Franchises in the House of Representatives in Congress on 10 July voted to reject a new franchise for multimedia network ABS-CBN, after the expiration of the network's 25-year operating franchise.  EPA-EFE/ROLEX DELA PENA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Einni stærstu fjölmiðlasamsteypu Filippseyja, ABS-CBN, hefur verið synjað um endurnýjun útvarpsleyfis og fær því ekki að hefja útsendingar á ný. Leyfið rann út 4. maí og hafði umsókn fyrirtækisins um 25 ára framlengingu útvarpsleyfisins ekki fengið afgreiðslu. Því var það þvingað til að hætta útsendingum. Umsóknin var svo tekin fyrir hjá fjölmiðlanefnd filippseyska þingsins á föstudag, þar sem henni var hafnað með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Refsað fyrir gagnrýni á Duterte

Stjórnarandstæðingar segja ljóst að þetta megi rekja beint til gagnrýni fjölmiðla ABS-CBN samsteypunnar á Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, og stjórn hans. ABS-CBN neitaði meðal annars að birta kosningaauglýsingar Dutertes árið 2016 í fjölmiðlum sínum, en fyrirtækið rekur tugi útvarps- og sjónvarpsstöðva.

Hollvinir ljósvakarisans söfnuðust saman við þinghúsið þegar fjölmiðlanefndin fjallaði um umsóknina og kröfðust þess að fjölmiðlafrelsi yrði virt og árásum á gagnrýna fjölmiðla hætt.

Svartur dagur fyrir fjölmiðlafrelsið

Þegar niðurstaða nefndarinnar lá fyrir sagði Phil Robertson, aðstoðarframkvæmdastjóri Asíudeildar Mannréttindavaktarinnar, að þetta væri „svartur dagur fyrir fjölmiðlafrelsi í landi, sem áður var álitið höfuðvígi fjölmiðlafrelsis og lýðræðis í sínum heimshluta,“

Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja ákvörðun meirihlutans ekki einungis grófa árás á fjölmiðlafrelsið í landinu, heldur einnig grafa undan baráttunni gegn útbreiðslu kórónaveirunnar, sem þegar hefur sýkt yfir 50.000 manns og kostað á annað þúsund mannslíf svo vitað sé.

ABS-CBN getur og mun áfrýja niðurstöðu nefndarinnar. Filippseyjar eru í 136. sæti af 180 á lista samtakanna Blaðamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi í löndum heims.