Farsóttin enn í vexti vestanhafs - nýtt sólarhringsmet

12.07.2020 - 01:41
epa08537460 People wearing masks wait to enter the Hialeah Hospital in Hialeah, Florida, USA, 09 July 2020. On Wednesday morning Florida reported 9,989 new cases of COVID-19 and 48 new resident deaths.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
Biðröð utan við Hialeah-sjúkrahúsið í samnefndri borg í Flórída Mynd: EPA-EFE - EPA
Ekkert lát er á fjölgun kórónuveirusmita í Bandaríkjunum þar sem 66.528 ný smit og 760 dauðsföll voru staðfest síðasta sólarhringinn. Þessar tölur koma frá Johns Hopkins háskólanum í Maryland, sem heldur utan um hvers kyns tölfræði í tengslum við heimsfaraldurinn. Aldrei hafa fleiri greinst á einum degi í einu landi. Fyrra met er aðeins tveggja daga gamalt; síðasta fimmtudag greindist 65.551 smit í Bandaríkjunum.

Metfjöldi smita greindist í níu ríkjum Bandaríkjanna síðasta sólarhring; í Alaska, Georgíu, Idaho, Iowa, Louisiana, Ohio, Utah og Wisconsin. Þá hefur farsóttin ekkert linað tökin í þremur fjölmennustu ríkjunum í sunnanverðum Bandaríkjunum, þar sem um og yfir 10.000 smit hafa greinst daglega upp á síðkastið.

Alls hafa nú verið staðfest 3.242.073 kórónuveirusmit í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum Johns Hopkins, og 134.729 dauðsföll af völdum COVID-19. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi