„Væri dapurt að vera enn atvinnulaus við sumarlok“

„Við erum mjög tengd Íslandi og þótt við eigum okkar föðurland þá viljum við vera hér og vinna hér,“ segir Agnes Gac, hótelstarfsmaður í Vík í Mýrdal, í viðtali í kvöldfréttum.  

Í Vík eru um fjörutíu prósent íbúa af erlendu bergi brotnir og langflestir starfa við ferðaþjónustu. Þar fjaraði hratt undan atvinnulífinu þegar ferðaþjónustan lagðist nánast af í kjölfar COVID-19 faraldursins. Nú er hátt í þrjátíu prósenta atvinnuleysi í Vík.  

Hafa sent hátt í átta þúsund tölvupósta

Agnes og Tómas, kærasti hennar, misstu vinnuna á Hotel Volcano fyrir fjórum mánuðum. Eigendur hótelsins hýsa þau áfram og þau ætla ekki að gefast upp. Slíkur kraftur er reyndar í atvinnuleit þeirra að þau segjast hafa sent hátt í átta þúsund tölvupósta í von um störf.  

Agnes segir þau síst vilja sitja aðgerðalaus, enda komi það niður á heilsufarinu. „Það er fínt að nú sé sumar því þá er lífið auðveldara,“ bætir Tomas við. „Þó væri dapurt að vera enn atvinnulaus við sumarlok.“ 

Sveitarstjórinn kvíðir haustinu 

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segist kvíða haustinu. „Auðvitað vonum við það besta og höfum gert það alla tíð og reynum að halda í það. En auðvitað ef maður er raunsær og miðað við hvað er að berast inn af bókunum hérna og bara þessa óvissu, og hvað verður ef það kemur bakslag, þá erum við komin á upphafspunkt,“ segir Þorbjörg.  

Hún segir marga farna að hugsa sér til hreyfings. Fjöldi fólks sé á atvinnuleysisbótum og margir farnir að líta í kringum sig, hvort sem er til annarra sveitarfélaga eða til útlanda.  

Ljósið í myrkrinu er kannski það að Íslendingar ferðast mikið innanlands í sumar og fylla hótelin meðal annars í Vík, en hugsanlega ekki lengur en út sumarið. 

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi