Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Trump lét sjá sig með grímu í fyrsta sinn

epa08541228 US President Donald J. Trump (C) wears a face mask as he arrives to visit with wounded military members and front line coronavirus healthcare workers at Walter Reed National Military Medical Center in Bethesda, Maryland, USA, 11 July 2020.  EPA-EFE/CHRIS KLEPONIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - POLARIS IMAGES POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, bar svarta andlitsgrímu, merkta forsetaembættinu, þegar hann heimsótti Walter Reed-hersjúkrahúsið, skammt utan við Washingtonborg, í dag, laugardag. Er þetta í fyrsta skiptið sem forsetinn lætur sjá sig með grímu fyrir vitum sér á almannafæri og í opinberum erindagjörðum.

Mjög hefur verið þrýst á Trump að setja gott fordæmi í baráttunni gegn útbreiðslu COVID-19 með því að bera andlitsgrímu við opinber tækifæri, eins og heilbrigðisyfirvöld vestra mæla með að gert sé - og eins og hann hefur raunar sjálfur mælt með að fólk geri. 

Forsetinn hefur hins vegar ekki fylgt þeim ráðum sjálfur, fyrr en í heimsókninni á hersjúkrahúsið í dag, þar sem hann heilsaði upp á særða hermenn og veika í fylgd herskara herforingja, sem einnig báru svartar grímur.

„Ég hef aldrei verið á móti grímum, en ég er þeirrar skoðunar að þær eigi sér sinn stað og stund,“ sagði Trump í þann mund sem hann yfirgaf Hvíta húsið á leið sinni í sjúkrahúsheimsóknina. Hann setti svo upp grímuna og arkaði framhjá fréttamannaskaranum sem beið hans í túnfæti Hvíta hússins, án þess að tjá sig frekar, segir í frétt AFP.