Sagður hafa verið dæmdur áður fyrir kynþáttaníð

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sagður hafa verið dæmdur áður fyrir kynþáttaníð

11.07.2020 - 15:10
Leikmaður Skallagríms sem sakaður er um að hafa beitt leikmann Berserkja kynþáttaníði í leik liðanna í 4. deild karla í fótbolta í gærkvöld er sagður hafa farið áður í bann frá KSÍ fyrir kynþáttaníð.

Gunnar Jökull Johns, leikmaður Berserkja, varð fyrir aðkasti á grundvelli hörundlitar síns í tvígang með skömmu millibili frá sama leikmanni Skallagríms. Þeim leikmanni var skipt af leikvelli eftir síðara atvikið.

Dómarar leiksins misstu af atvikinu en tilkynntu það til KSÍ. Skallagrímur sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem forráðamenn félagsins segja að það „muni ekki líða það að leikmenn viðhafi ummæli sem fela í sér kynþáttafordóma og mun félagið grípa til viðeigandi ráðstafana í samráði við KSÍ.“

Samkvæmt frétt mbl.is og útvarpsþættinum Fótbolti.net var sá sem sakaður er um kynþáttaníðið áður dæmdur fyrir slíkt af KSÍ. Áhorfandi á leik Kormáks/Hvatar og KB sumarið 2015 var dæmdur í tveggja ára bann frá fótboltaleikjum fyrir kynþáttaníð í garð aðstoðardómara. Sá áhorfandi er sagður vera áðurnefndur leikmaður Skallagríms. Hann sé því að koma á borð KSÍ í annað sinn vegna kynþáttaníðs.

Björgvin Stefánsson, leikmaður KR sem er í dag á láni hjá KV, var dæmdur í fimm leikja bann af Knattspyrnusambandi Íslands fyrir rasísk ummæli sem hann lét falla við sjónvarpslýsingu á leik í fyrra.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Félagið muni grípa til viðeigandi ráðstafana

Fótbolti

Leikmaður Berserkja varð fyrir kynþáttafordómum