Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stefnir í átök um ákvörðun Sigríðar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fyrirhugaðri ákvörðun ríkislögreglustjóra um að vinda ofan af breytingum sem Haraldur Johannessen gerði á launum æðstu yfirmanna embættisins verður andmælt. Svo kann að fara að tekist verði á um málið fyrir dómstólum. Lögreglustjórar lýsa yfir stuðningi við fyrirætlanir ríkislögreglustjóra.

Fréttastofa greindi frá því í gær að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, hygðist vinda ofan af launasamkomulagi sem gert var við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna í tíð Haraldar Johannessen og færði þeim stóraukin lífeyrisréttindi. Við ákvörðunina studdist Sigríður við lögfræðiálit þar sem segir að Haraldur hafi ekki haft heimild til að gera slíka samninga.

Lögreglustjórar styðja Sigríði

Viðkomandi fá tvær vikur til að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun Sigríðar og Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir við fréttastofu að það verði gert. Hann segir að lögmaður Landssambands lögreglumanna vinni að lögfræðiáliti þar sem ákvörðuninni verði andmælt. Hann segir aðspurður að það verði tekið til alvarlegrar athugunar hvort málinu verður vísað til dómstóla ef launafyrirkomulaginu verður breytt.

Lögreglustjórar gerðu á sínum tíma alvarlegar athugasemdir við samkomulagið og vöktu athygli dómsmálaráðherra á því. Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélagsins, segir við fréttastofu að Sigríður Björk njóti fulls stuðnings lögreglustjóra í þessu máli.

Efast um hæfi Haralds

Í lögfræðiálitinu sem ríkislögreglustjóri studdist við eru ekki bara gerðar athugasemdir við lögmæti ákvörðunar Haralds, heldur einnig hæfi hans. Vísað er til þess að sjö af þeim tíu lögregluþjónum sem samið var við um breytt starfskjör hafi sent dómsmálaráðherra yfirlýsingu þar sem lýst var yfir fullum stuðningi við Harald, á þeim tíma sem verulegur styr stóð um störf hans.

Í ljósi þeirrar stöðu sem Haraldur var í, efnis samninganna og að tilteknir starfsmenn hafi sent út sérstaka yfirlýsingu Haraldi til stuðnings, kunni að vakna spurningar um hæfi hans en ekki er tekin afstaða til þess álitamáls.