Þrýst á aukið frelsi en lítið þarf fyrir annan faraldur

09.07.2020 - 19:10
Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV - Bragi Valgeirsson
Búast má við breyttum áherslum í sýnatöku á landamærum um næstu mánaðamót og hún beinist í auknum mæli að Íslendingum. Sóttvarnalæknir ætlar að leggja til að veitingastaðir geti verið opnir lengur en nú er, en ætlar að bíða með tillögur um rýmkun á samkomutakmörkunum.

Frá og með næsta mánudegi þurfa Íslendingar sem koma til landsins og aðrir sem eru hér búsettir að fara tvisvar í sýnatöku vegna kórónuveirunnar - fyrst á landamærum og svo aftur fjórum til sex dögum síðar á vegum heilsugæslunnar. Í millitíðinni verður fólki gert að halda sig til hlés í nokkurs konar vægri sóttkví.

Þessi tvöfalda sýnataka á að koma í veg fyrir að smitaðir einstaklingar, sem greinast neikvæðir við landamæraskimun en síðar jákvæðir, smiti aðra eins og gerðist í júní þegar um fjögur hundruð manns þurftu að fara í sóttkví vegna slíks tilviks. Þrjú virk smit hafa greinst við landamæraskimun frá því á mánudag, öll hjá erlendum ferðamönnum. 

Samningur við Færeyinga léttir á íslenska kerfinu

Samkomulag er í burðarliðnum við Færeyinga að taka við skimun farþega Norrænu sem eru á leið hingað til lands.

„Það mun klárlega létta á hjá okkur, til dæmis í morgun held ég að hafi komið 700 manns með norrænu þannig að það ætti að létta á hjá okkur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Hann sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann ætlaði ekki að leggja til að samkomutakmarkanir, sem nú miðast við 500 manns, yrðu rýmkaðar í það minnsta út ágúst.

Pressa en betra að fara varlega

Þórólfur ætlar hins vegar að leggja til að veitinga- og skemmtistaðir megi hafa opið lengur en til klukkan ellefu á kvöldin eins og nú er. Það sé ákveðin pressa um slíkt þar sem lítið er um innanlandssmit.

„Það er pressa já, það er pressa frá flestum í samfélaginu að auka frelsið. En ég held að það sé hollt að hafa það í huga að það þarf ekki mikið að fara úrskeiðis svo við fáum hér annan faraldur. Svo það er betra að fara varlega,“ segir Þórólfur, og telur ólíklegt að stjórnvöld hætti allri skimun á næstunni.

Reiknað var út að skimun á landamærum í þrjá mánuði myndi kosta um tvo og hálfan milljarð. Tveir milljarðar yrðu svo innheimtir með gjaldtöku, sem færu í að byggja upp innviði og búnað sem myndi svo nýtast áfram eftir að skimunartímabili lyki.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi