Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sólarlandaferðir seljast grimmt

09.07.2020 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands - RÚV
Eftirspurn eftir sólarlandaferðum hefur aukist mikið á síðustu dögum. Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofunnar VITA, segir að það sé uppselt í sumar fyrstu ferðirnar sem farnar verða um helgina. VITA fer í sólina að nýju fjórum mánuðum eftir að flugferðum var hætt í mars vegna kórónuveirufaraldursins. 

Ferðaskrifstofan VITA hefur ekki boðið upp á sólarlandaferðir síðan í mars en farið verður að nýju til Tenerife og fleiri sólríkra staða á laugardag. Þráinn Vigfússon er framkvæmdastjóri VITA. 

„Við finnum miklum áhuga núna á að komast í sól. Fyrstu tvær brottfarirnar á Alacante eru þegar uppseldar og svo er fyrsta brottför núna á laugardaginn á Tenerife, það er eitthvað laust í hana en önnur brottförin er að seljast upp,“ segir Þráinn.

Hann segir að ástandið hafa batnað á Spáni. Samkvæmt upplýsingum New York Times greinast að jafnaði fjögur hundruð ný kórónuveirusmit þar á dag en voru um átta þúsund þegar verst lét í byrjun apríl.

Þráinn segir að margir sem vilji fara til Alicante kaupi eingöngu flug og eigi því hús þar sem það vill vera í. „Og er þá ekkert endilega í miklum samskiptum við heimamenn,“ segir Þráinn.

Leitun er að sól í veðurkortum fyrir Ísland næstu daga og ef það glyttir í hana þá er hún gjarnan að fela sig að hluta til bak við ský. Á þriðjudaginn í næstu viku er svo spáð ausandi rigningu um allt land. Þráinn telur að þetta skýri að einhverju leyti aukna eftirspurn eftir sólarlandaferðum.

Þó séu færri ferðir í boði núna en fyrir ári. „Við höfum dregið töluvert mikið úr framboðinu og erum með svona helmingi minna framboð á Alicante-svæðið en við áætluðum að vera með og ennþá minna á Tenerife, segir Þráinn.

Hann er bjartsýnn á að lítið verði um veirusmit í ferðunum. 

„Það er mjög mikið af varúðarráðstöfunum úti og fólk er náttúrulega að passa sig þegar það ferðast. Fólk er ekki að ferðast veikt. Þannig að já, ég er bjartsýnn á að þetta gangi mjög vel,“ segir Þráinn.