Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir skólann hafa svívirt minningu ömmu sinnar

09.07.2020 - 21:52
Sigurður Guðmundsson fokreiddist í gær er hann skoðaði svæðið sem föðurfjölskylda hans gaf Háskólanum á Akureyri fyrir aldarfjórðungi. Hann segir að skólinn hafi svívirt minningu ömmu sinnar. 

Árið 1995 gáfu systkinin frá Veisu í Fnjóskadal háskólanum á Akureyri veglega gjöf, stóran hluta jarðarinnar Végeirsstaða. Þar hafði fjölskyldan lengi átt sælureit og gróðursett hátt í 400.000 tré, byggt sumarhús og litla kapellu.

Systkinin vildu að svæðið nýttist skólanum fyrir rannsóknir og að hægt yrði að halda ræktuninni áfram.

„Ég var eiginlega bara í sjokki og var brugðið að sjá hvernig ástandið er á þessum fallega reit,“ segir Sigurður og fleiri afkomendur systkinanna hafa lýst hneykslun sinni.

Rektor skólans segir gagnrýnina ómaklega og að skemmdir hafi orðið í vetur vegna snjóþyngsla.

„Grindverk, handrið og pallar hafa vissulega orðið fyrir miklu álagi,“ segir Eyjólfur Guðmundsson rektor skólans og kveður húsnæðið sjálft vera í góðu standi.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir