Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Opna á umsóknir um stuðningslán

09.07.2020 - 16:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki hafa opnað á umsóknir um stuðningslán. Lánin voru meðal þeirra aðgerða sem kynntar voru í aðgerðapakka stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins í apríl. Þau eru ætluð litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Guðmundur Ólafsson, hjá fyrirtækjaþjónustu Arion banka, segir tafir á lánveitingum mega að stærstum hlut rekja til þess að tíma tók að koma á miðlægri þjónustugátt stjórnvalda á Ísland.is vegna stuðningslánanna, sem hefur nú verið opnaður.

„Við erum búin að prófa okkar kerfi á móti miðlægu þjónustugáttinni og það er bara að virka vel. Umsóknirnar sem við höfum verið að vinna með hafa farið í gegn í dag og skilað sér til okkar í okkar gátt,“ segir hann.

Að sögn Guðmundar nýtti Arion banki tímann síðustu vikur í prófanir. „Við erum ekki búin að greiða út lán en þessi lán verða líklega greidd út í næstu viku þegar við erum búin að ganga úr skugga að allt gengur eins og það á að gera.“ Eftir það gerir Arion ráð fyrir að lánafyrirgreiðslan muni ganga hraðar fyrir sig.

Lánin geta að hámarki numið 40 milljónum króna og mega ekki fara yfir 10% af tekjum fyrirtækis á síðasta rekstrarári.

Guðmundur segir töluvert hafa verið spurt um lánin og margir vilji komast í gáttina og sjá hvernig fyrirkomulagið virkar. „Það er alveg þannig að það eru einhver fyrirtæki sem bíða eftir þessu,“ segir hann. 

Aðalmálið er að fara í gegnum gáttina og sjá hvort að viðkomandi uppfyllir skilyrðin. „Þegar það er komið og við fáum umsókn sem uppfyllir öll skilyrði þá á ferlið hér að taka mjög hraðan tíma,“ segir hann. 

Fyrst um sinn mun þó taka allt að viku að greiða út fyrstu lánin á meðan verið er að ganga úr skugga að kerfin virki eins og þau eiga að gera.

Fréttin hefur verið uppfærð.