Hálft ár frá því að varað var fyrst við kórónuveirunni

09.07.2020 - 19:38
Mikið álag er á sjúkrahúsum víða í Brasilíu vegna COVID-19 farsóttarinnar. - Mynd: EPA-EFE / EFE
Yfir tólf milljónir manna hafa nú greinst með kórónuveirusmit á heimsvísu, þegar hálft ár er frá því að stjórnvöld í Kína og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vöruðu fyrst við lungnasjúkdómi sem greinst hafði í Wuhan-héraði.

Rúmlega 550 þúsund manns hafa látist í farsóttinni, að meðaltali þrjú þúsund á degi hverjum. Níunda janúar greindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin frá því að lungnabólguveira sem hefði greinst í Kína væri að öllum líkindum afbrigði kórónuveiru. Degi síðar gaf stofnunin út fyrstu leiðbeiningar um hvernig ætti að bregðast við skyldi veiran breiðast út, þremur dögum síðar greindist fyrsta tilfellið utan Kína og fljótlega varð sjúkdómurinn fastur liður í fréttum.

Veiran breiddist hratt út næstu vikurnar og 30. janúar lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin yfir neyðarástandi á heimsvísu, þegar tæplega átta þúsund tilfelli höfðu verið staðfest í nítján löndum. Fyrsta tilfelli á Íslandi var greint 28. febrúar og 11. mars skilgreindi stofnunin útbreiðslu COVID-19 sem heimsfaraldur.

Veiran breiddist fyrst hratt út í Kína og síðan í nærliggjandi löndum í Asíu. Á þeim tíma voru næstflest greind smit í heiminum um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess. Ítalía, Spánn og Bandaríkin urðu næstu lönd þar sem smitum fjölgaði mjög hratt. Rúmlega tólf milljónir manna hafa nú greinst með kórónuveirusmit á heimsvísu, þar af rúmlega þrjár milljónir í Bandaríkjunum. 

Þrátt fyrir að víða hafi verið slakað á samkomu- og ferðatakmörkunum vegna færri smita heldur nýjum tilfellum áfram að fjölga í um áttatíu löndum. Tilfellum fjölgar mest í Bandaríkjunum, Brasilíu, Indlandi og Mexíkó. Þá hafa stjórnvöld og heilbrigðisstofnanir lýst þungum áhyggjum af fjölda smita í löndum Afríku og Suður-Ameríku þar sem heilbrigðiskerfi eru verr í stakk búin til að bregðast við útbreiðslunni.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi