Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ekki skipuð réttargæslumaður vegna vitnaskyldu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í gær að lögmaður fái ekki skipun sem réttargæslumaður kvenna í kynferðisbrotamáli. Ástæðan er sú að hinn ákærði áformar að leiða lögmanninn fram sem vitni í málinu. Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun.

Lögmaðurinn, Sigrún Jóhannsdóttir, var réttargæslumaður kvennanna meðan á lögreglurannsókn stóð. Ákærði, sem hefur starfað við að meðhöndla fólk með stoðkerfisvanda, hefur verið sakaður um kynferðisbrot af fjölda kvenna. 

Samkvæmt 44. grein laga um meðferð sakamála getur sá sem kvaddur er til þess að gefa skýrslu sem vitni ekki gegnt réttargæslu í sama máli.

Í fréttinni segir að ágreiningur um skipun Sigrúnar hafi komið upp við þingfestingu málsins. Í úrskurðinum var skipun annars réttargæslumanns sömuleiðis afturkölluð af þeirri ástæðu að hann er sambýlismaður Sigrúnar. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV