Ástralir framlengja dvalarleyfi allra Hong Kong-búa

09.07.2020 - 04:43
Erlent · Asía · Ástralía · Bretland · Hong Kong · Kína · Eyjaálfa · Stjórnmál
epa08535789 Australia's Prime Minister Scott Morrison speaks at a press conference at Parliament House in Canberra, Australia, 09 July 2020. Australia has suspended the extradition agreement with Hong Kong, granting temporary visa holders from the territory an additional five years with a pathway to permanent residency in Australia.  EPA-EFE/MICK TSIKAS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, tilkynnir breytta hagi Hong Kong-búa í Ástralíu Mynd: EPA-EFE - AAP
Áströlsk stjórnvöld framlengdu í dag vegabréfsáritanir þeirra um það bil 10.000 Hong Kong-búa sem eru í Ástralíu og tilkynntu yfirvöldum borgríkisins einhliða riftun á gagnkvæmum samningi Hong Kong og Ástralíu um framsal grunaðra og dæmdra brotamanna. Hvort tveggja er bein afleiðing hinna nýju öryggislaga sem Pekingstjórnin innleiddi í Hong Kong í liðinni viku og skerða mjög tjáningar- og skoðanafrelsi borgarbúa.

Viðbrögð við „grundvallarbreytingum“ á aðstæðum Hong Kong-búa

Scott Morrison, forsætisráðherra, segir öryggislögin fela í sér „grundvallarbreytingu“ á aðstæðum fólks í Hong Kong, sem kalli á viðeigandi viðbrögð. Allir Hong Kong-búar með gilda vegabréfsáritun fá dvalarleyfi sitt sjálkrafa framlengt um fimm ár, samkvæmt nýju reglunum. Þá verður lögð áhersla á að auðvelda þeim Hong Kong-búum sem nú eru í Ástralíu við nám og störf að gerast ástralskir ríkisborgarar.

Bretar bjóða 3 milljónir Hong Kong-búa velkomna

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í byrjun júní, að hann hygðist greiða leið um þriggja milljóna Hong Kong-búa til Bretlands, ef stjórnvöld í Peking gerðu alvöru úr hótunum sínum um herta öryggislöggjöf í sjálfstjórnarhéraðinu. Hét hann því að gera þær breytingar sem með þyrfti til að auðvelda þeim að gerast breskir ríkisborgarar. Tilboðið nær aðeins til um 40 prósenta Hong Kong-búa; fólks sem fætt er fyrir 1997 og er með eða hefur rétt á sérstöku, bresku utanlandsvegabréfi.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi