Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kínverska leyniþjónustan opnar útibú í Hong Kong

08.07.2020 - 04:41
epa08533597 Police stand guard outside Beijing's Office for Safeguarding National Security in Causeway Bay, Hong Kong, China, 08 July 2020. The office, created under Beijing’s national security law for Hong Kong, is responsible for supervising and guiding the local government's enforcement of the legislation which targets secession, subversion, terrorism and collusion with foreign forces.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínversk yfirvöld opnuðu í dag höfuðstöðvar undirstofnunar eigin leyniþjónustu og öryggislögreglu í Hong Kong. Er þetta í fyrsta skipti sem slík stofnun starfar opinberlega í sjálfstjórnarhéraðinu. Höfuðstöðvarnar eru í stórhýsi á besta stað í miðborginni, þar sem til skamms tíma var rekið hótel.

Útsýni yfir helsta mótmælasvæði lýðræðissinna

Útsýnið er ekki af verri endanum hjá útsendurum Peking-stjórnarinnar, því byggingin stendur við Victoria-garðinn, sem hefur verið miðpunktur pólitískra baráttufunda lýðræðissinna í Hong Kong um árabil. Þar hafa til að mynda verið haldnir fjöldafundir í júní ár hvert til að minnast fjöldamorðs kínverskra stjórnvalda á mótmælendum á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

„Stofnun til verndar þjóðaröryggi ríkisstjórnar fólksins í alþýðulýðveldinu Kína í sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong “

Skilti með nafni þessarar nýju leyni- og öryggisstofnunar var afhjúpað með pomp og pragt að morgni miðvikudags, að viðstöddum æðstu embættismönnum og lögregluforingjum Hong Kong, segir fréttaritari AFP á staðnum. Lögregla lokaði öllum leiðum að hótelinu á meðan á athöfninni stóð og kínverski fáninn var dreginn að húni.

Í frétt kínversku ríkisfréttastofunnar Xinhua segir: „Stofnun til verndar þjóðaröryggi ríkisstjórnar fólksins í alþýðulýðveldinu Kína í sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong var opnuð með viðhöfn í morgun."

Hert öryggislöggjöf skerðir skoðana- og tjáningarfrelsi

Stjórnvöld í Peking settu í liðinni viku lög sem skerða mjög tjáningarfrelsi Hong Kong-búa, leggja blátt bann við hvers kyns gagnrýni og andófi gegn Kínastjórn og baráttu fyrir lýðræði og sjálfstæði, að viðlögðum þungum refsingum.

Löggjöfin felur í sér róttækustu breytingu sem orðið hefur á högum Hong Kong-búa síðan Bretar seldu yfirráð sín yfir borginni í hendur Kínverja árið 1997. Gagnrýnendur segja að með þessu sé tilvist Hong Kong sem sjálfstjórnarhéraðs í raun lokið í öllu nema orði kveðnu.

Eru lögin í öllum meginatriðum samhljóða þeim lögum sem gilda á meginlandinu. Hefur lögregla í Hong Kong þegar handtekið fólk á grundvelli þeirra, svo sem fyrir að kalla opinberlega eftir sjálfstæði borgríkisins og meira lýðræði.