Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

57 látin og varað við áframhaldandi hamförum í Japan

08.07.2020 - 04:49
Erlent · Hamfarir · Asía · Flóð · Japan · Veður
epa08533469 Mud and debris cover a street in Kuma, Kumamoto prefecture, southwestern Japan, 07 July 2020 (Issued 08 July 2020). According to latest madia reports, 57 people died and 12 are still missing due to the floods that hit Kumamoto prefecture on 04 July.  EPA-EFE/JIJI PRESS JAPAN OUT EDITORIAL USE ONLY/  NO ARCHIVES
Þessi mynd er tekin í Kuma í Kumamoto-héraði í suðvesturhluta Japan. Þar er mesta vatnsveðrið að baki en enn meiri úrkomu er spáð um miðbik Honsjú-eyju í dag. Mynd: EPA-EFE - JIJI PRESS
Japönsk yfirvöld gáfu í morgun út viðvaranir vegna hættu á enn frekari flóðum og skriðuföllum í dag, þegar úrhellisrigning gengur yfir miðbik Honsjú, stærstu eyju Japans. 57 hafa þegar týnt lífi í hamförum af völdum stórrigninga sem geisað hafa eystra síðan snemma á laugardagsmorgun. Spáð er fordæmalausu úrhelli í dag.

Vatnsveðrið gerði fyrst usla á Kyushu-eyju, suðvestur af Honsjú, þar sem ár flæddu yfir bakka sína og aurskriður féllu úr fjallshlíðum og eirðu engu.

Veðurstofa Japans sendi í morgun frá sér rauða viðvörun fyrir Gifu- og Nagano-héruð á Honsjú. Veðurfræðingur sem þar starfar segir að útlit sé fyrir dæmalaust stólparegn á þessum slóðum í dag og hættuna á flóðum og skriðum eftir því mikla. „Þetta eru aðstæður þar sem þið verðið bara að gera ykkar besta til að bjarga lífi ykkar," hefur AFP-fréttastofan eftir þessum ónefnda veðurfræðingi. 

Yfir 80.000 manns hafa þegar verið sendir á þau svæði sem verst hafa orðið úti í hamförunum, til að bjarga fólki sem kemst hvergi vegna vatnselgs og skriðufalla. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV