Þessi mynd er tekin í Kuma í Kumamoto-héraði í suðvesturhluta Japan. Þar er mesta vatnsveðrið að baki en enn meiri úrkomu er spáð um miðbik Honsjú-eyju í dag. Mynd: EPA-EFE - JIJI PRESS

Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.
Japönsk yfirvöld gáfu í morgun út viðvaranir vegna hættu á enn frekari flóðum og skriðuföllum í dag, þegar úrhellisrigning gengur yfir miðbik Honsjú, stærstu eyju Japans. 57 hafa þegar týnt lífi í hamförum af völdum stórrigninga sem geisað hafa eystra síðan snemma á laugardagsmorgun. Spáð er fordæmalausu úrhelli í dag.
Vatnsveðrið gerði fyrst usla á Kyushu-eyju, suðvestur af Honsjú, þar sem ár flæddu yfir bakka sína og aurskriður féllu úr fjallshlíðum og eirðu engu.
Veðurstofa Japans sendi í morgun frá sér rauða viðvörun fyrir Gifu- og Nagano-héruð á Honsjú. Veðurfræðingur sem þar starfar segir að útlit sé fyrir dæmalaust stólparegn á þessum slóðum í dag og hættuna á flóðum og skriðum eftir því mikla. „Þetta eru aðstæður þar sem þið verðið bara að gera ykkar besta til að bjarga lífi ykkar," hefur AFP-fréttastofan eftir þessum ónefnda veðurfræðingi.
Yfir 80.000 manns hafa þegar verið sendir á þau svæði sem verst hafa orðið úti í hamförunum, til að bjarga fólki sem kemst hvergi vegna vatnselgs og skriðufalla.