Zlatan skoraði í ótrúlegri endurkomu gegn Juventus

epa08533336 Milan's forward Zlatan Ibrahimovic (R) in action against Juventus' defender Leonardo Bonucci during the Italian Serie A soccer match between AC Milan and Juventus Turin at the Giuseppe Meazza Stadium in Milan, Italy, 07 July 2020.  EPA-EFE/ROBERTO BREGANI
 Mynd: EPA

Zlatan skoraði í ótrúlegri endurkomu gegn Juventus

07.07.2020 - 21:45
AC Milan vann 4-2 sigur á Ítalíumeisturum Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Juventus var 2-0 yfir þegar hálftími var eftir af leiknum.

Juventus átti tækifæri á að ná tíu stiga forystu á toppi deildarinnar með sigri en Lazio, sem er í öðru sæti, tapaði óvænt 2-1 fyrir Lecce fyrr í kvöld. AC Milan gat aftur á móti farið úr sjöunda sæti upp í það fimmta með sigri.

Markalaust var í leikhléi þar sem Svíinn Zlatan Ibrahimovic, sem lék með Juventus frá árunum 2004 til 2006, virtist ætla að koma AC Milan yfir í uppbótartíma en mark hans var dæmt af vegna rangstöðu.

Leikurinn átti þó eftir að springa út í síðari hálfleik. Frakkinn Adrien Rabiot kom Juventus í forystu eftir aðeins tveggja mínútna leik í síðari hálfleik með frábæru marki þar sem hann vann boltann á eigin vallarhelmingi áður en hann rak hann alla leið á vítateig AC Milan hvaðan hann negldi boltann upp í hornið hægra megin. Ofurstjarnan Cristiano Ronaldo tvöfaldaði svo forystu Juventus með 26. marki sínu í deildinni sex mínútum síðar.

Á 62. mínútu leiksins fékk AC Milan hins vegar dæmda vítaspyrnu. Zlatan steig þá á punktinn og skoraði löglega í það skiptið til að minnka muninn í 2-1. Fjórum mínútum síðar jafnaði Fílabeinsstrendingurinn Franck Kessié leikinn fyrir AC Milan með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Zlatan innan teigs Juventus.

AC Milan lagði aftur í sókn strax eftir miðju Juventus og kom varamaðurinn Rafael Leao liðinu 3-2 yfir aðeins mínútu síðar. AC Milan hafði því snúið 0-2 stöðu í 3-2 á aðeins fimm mínútna kafla.

Leikmenn Juventus virtust algjörlega slegnir út af laginu í kjölfarið og féll það í hlut Króatans Ante Rebic að klára leikinn endanlega tíu mínútum fyrir leikslok með fjórða marki heimamanna á San Siro.

Frækinn 4-2 sigur AC Milan staðreynd og er liðið nú með 49 stig í fimmta sæti deildarinnar, heilum 14 stigum á eftir Atalanta sem er í fjórða sætinu. Roma og Napoli fylgja fast á hæla Mílanóliðsins með 48 stig í sjötta og sjöunda sæti og eiga bæði leik inni. Juventus er á toppnum með 75 stig, sjö stigum frá Lazio í öðru sætinu.