Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við búum hérna á óvenju virku svæði“ 

07.07.2020 - 11:42
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Ekkert lát virðist vera á skjálftavirkni við mynni Eyjafjarðar og við utanverðan Reykjanesskaga. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir ekkert benda til beinna tengsla milli þessara atburða.

Ekkert lát á virkni

Yfir 10.000 jarðskjálftar hafa mælst fyrir mynni Eyjafjarðar frá 19. júní. Þá virðist ekkert lát á skjálftavirkni við Grindavík sem hófst í byrjun árs. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir vert að fylgjast áfram grannt með gangi mála á þessum slóðum. 

Segir engin merki um bein tengsl

„Já það er ekki hægt að sjá neinar vísbendingar um bein tengsl þarna á milli, umfram það að við búum hérna á óvenju virku svæði jarðarinnar og hér eru eiginlega á hverjum tíma alltaf mörg ferli í gangi. Þetta tengist því fyrst og fremst að við erum hér á það sem er kallað heitur reitur, það er meiri eldvirkni hér en á flestum sambærilegum stöðum á jörðinni. Þar að auki erum við með loftslagsbreytingar í gangi sem margir kannast við og þær valda líka jarðskorpuhreyfingum og jarðskorpuhreyfingar valda jarðskjálftum,“  segir Páll. 

Hvernig horfa svona næstu vikur og mánuður við þér, varðandi þessi tvö svæði?

„Þau eru bæði sem sé á fullri ferð núna þannig að það er full ástæða til að fylgjast vandlega með þróuninni.“