Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sér ekki tilgang í að hitta forsætisráðherra í dag

Mynd: RÚV / RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, þekktist ekki boð forsætisráðherra um að ræða við hana í stjórnarráðinu í dag. Hann var gestur í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.

Kári gagnrýndi samskiptaleysi stjórnvalda við Íslenska erfðagreiningu um áframhaldandi skimun og viðbrögð við faraldrinum í Morgunútvarpinu í morgun. Enginn tímarammi hafi verið ræddur um samstarf stjórnvalda og Íslenskrar erfðagreiningar hingað til. Hann sagði það með ólíkindum ef heilbrigðiskerfið væri ekki tilbúið að bregðast við þeim vikufresti sem hann gaf stjórnvöldum til þess að taka við skimuninni af þeirra hálfu.

Þekktist ekki boð Katrínar

„Ég fékk sms frá Katrínu þar sem hún spurði hvort ég vildi koma í stjórnarráðið að tala við hana í dag.“ Kári sagðist ekki sjá neinn tilgang í því. 

Hún væri hins vegar velkomin að koma til sín í hádegismat í Vatnsmýrina ef hún teldi það skila árangri.

Þvæla að ekki sé hægt að skima án ÍE

„Það hvarflar ekki að mér að tala um þann möguleika að fallast á þann drullusokkshátt að það sé ekki hægt að skima á landamærum nema við gerum það,“ sagði Kári. Það sé þvæla, það sé enginn vandi fyrir fólk að girða sig í brók, ná sér í þau tæki sem þurfi og þann dugnað sem þurfi til að geta framkvæmt skimunina áfram. 

Hann segir að það hafi tekið Íslenska erfðagreiningu fimm daga að koma sér upp aðstöðunni. Hann viti ekki hvað það sé sem aftri  heilbrigðisyfirvöldum að gera það sama. „Ég veit ekki hvað vantar því ég veit ekki hvað þeir hafa.“

Gagnrýnir seinagang stjórnvalda

„Það er dálítið kyndugt að í viðtali í gær segir Katrín að hún sé ekkert ósammála því að það væri skynsamlegt að setja upp svona stofnun eins og ég var að leggja til. Það vill svo til að við erum að fara í gegnum faraldur sem er þess eðlis að við höfum sé ástæðu til þess að svipta fólk grundvallar mannréttindum til að takast á við hann. Þegar þú ert á slíkum stað, þá hreyfir þú þig ekki hægt.“

Upplýsingafundur Almannavarna verður sýndur í beinni útsendingu á ruv.is klukkan 14:00 í dag.