Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir stuðning gagnast stórum sem smáum fjölmiðlum

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
„Mér finnst jákvætt að reglugerðin sé komin fram,“ segir Jóhanna Helga Viðarsdóttir, forstjóri Torgs útgefanda Fréttablaðsins og fleiri fjölmiðla, um reglugerð um stuðning stjórnvalda við einkarekna fjölmiðla. Jóhanna Helga segir að enn vanti samt leiðbeiningar sem hafa verið boðaðar um umsóknir áður en hægt er að meta reglugerðina að fullu.

„Ég held að þetta gagnist öllum, stórum fjölmiðlum sem smáum,“ segir Jóhanna Helga. Reglugerð menntamálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 faraldursins var gefin út á föstudag. Hún gildir um 400 milljóna króna endurgreiðslur ríkisins. Fjölmiðlar geta fengið allt að 25 prósent kostnaðar við fréttamiðlun endurgreiddan. Hvert fjölmiðlafyrirtæki getur að hámarki fengið fjórðung heildarfjárhæðarinnar, 100 milljónir, en í frumvarpi menntamálaráðherra var gert ráð fyrir 50 milljóna króna þaki.

Stuðningur við fjölmiðla er búinn að vera lengi í umræðunni og viðbúið að allir fagni því að þetta sé komið fram, segir Jóhanna Helga. Hún segir að almennt sé útfærslan í takt við það sem hefur verið í umræðunni.