Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Pompeo segir koma til greina að banna TikTok

07.07.2020 - 11:54
2020
 Mynd: Samsett mynd
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði það koma til greina að banna kínverska appið TikTok í Bandaríkjunum. Ný öryggislög í Hong Kong tóku gildi 1. júlí sem auka meðal annars heimildir kínverskra yfirvalda til gagnasöfnunar.

Pompeo sagði í viðtali á Fox News í dag að það komi til greina að banna notkun kínverska forritsins í Bandaríkjunum. Hann vildi þó ekki taka fram fyrir hendurnar á Bandaríkjaforseta með ótímabærum fullyrðingum. Hann sagði stjórnvöld líta notkun TikTok mjög alvarlegum augum. Hann mælti ekki með að samlandar hans næðu í forritið „nema þeir vildu að persónuupplýsingar þeirra færu beint í hendur Kommúnistaflokks Kína.“

Ný lög í Hong Kong tóku gildi í júlí sem heimila lögregluyfirvöldum meðal annars aukinn aðgang að þeim gögnum sem samfélagsmiðlar í Hong Kong safna. Stofnun sérstakrar öryggis- og eftirlitsskrifstofu var fyrirskipuð til að framfylgja lögunum í Hong Kong. Fjöldi mótmælenda hafa verið handteknir á grundvelli nýju laganna síðustu daga.

TikTok hættir starfsemi í Hong Kong

TikTok mun hætta starfsemi í Hong Kong í kjölfar innleiðingar nýju öryggislaganna. Þetta hefur fréttastofa BBC eftir talsmanni fyrirtækisins í dag. 

Kevin Mayer, forstjóri TikTok og fyrrverandi forstjóri hjá Walt Disney, hefur áður sagt að þau gögn sem TikTok safni fari ekki til kínverskra yfirvalda.

Fleiri samfélagsmiðlar svo sem Facebook, Google og Twitter segjast hafa vísað beiðnum lögregluyfirvalda í Hong Kong um úrvinnslu gagna sem fyrirtækin safna tímabundið frá meðan pólitískar breytingar í borginni ganga yfir.