Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Pólskumælandi íslenskukennarar gætu gert mikið gagn

07.07.2020 - 08:51
Innflytjendur telja að breyta og bæta þurfi íslenskukennslu og að mikið myndi ávinnast með að ráða pólskumælandi íslenskukennara. Þetta er meðal þess sem fram kom í rannsókn sem kynnt var á málþingi um málefni innflytjenda á Austurlandi.

Austurbrú stóð fyrir málþinginu sem haldið var í Egilsbúð í Neskaupstað. Þar kom fram að innflytjendur væru 11% af íbúum Austurlands, þeir eru frá hátt í 60 löndum en langflestir frá Póllandi. Leiðarstefið var að íslenskan væri lykillinn að velgengni fyrir sístækkandi hóp innflytjenda.

„Þegar innflytjendur koma hingað inn og tala ekki ensku þá erum við með kennara sem er íslenskumælandi, talar ekki þeirra tungumál og þetta hefur verið kannski sterkasta ákallið úr pólska málsamfélaginu, að þeir vilja sjá kennara sem er þá alveg tvítyngdur á íslensku og pólsku,“ segir Tinna K. Halldórsdóttir, félagsfræðingur og verkefnisstjóri hjá Austurbrú.

Einnig kom fram á málþinginu að auðvelda þurfi innflytjendum að fá nám sitt metið og auka sveigjanleika í skólakerfinu. Einnig að bæta móðurmálskennslu innflytjendabarna, sem oft sitja eftir þegar reyna fer á hugtakaskilning, og brottfall er mikið úr framhaldsskóla. Ein þeirra sem sagði frá reynslu sinni var Wala Abu Libdeh frá Palestínu. Hún býr í Neskaupstað og er í kennaranámi.  „Þegar nemendur byrja í grunnskóla þá er tekið vel á móti þeim, haldin einstaklingsnámskrá fyrir þau og allt svoleiðis. En svo þegar þau fara í framhaldsskóla þá eru þau bara týnd. Þá eiga þau bara að gera eins og allir hinir. Auðvitað er það bara erfitt og þau að sjálfsögðu detta bara út. Það sem ég hugsa er að einfalda námsefnið. Að þau myndu verða í því sama og allir hinir en á einfaldara máli,“ segir Wala.

Goisa Libera frá Póllandi býr á Eskifirði og sagði að þegar hún kom til Íslands fyrir 20 árum hafi hún verið sett á skólabekk í framhaldsskóla beint í íslenskutíma með íslenskum jafnöldrum. Hún hafi ekkert lært og það hafi brotið niður sjálfstraust hennar.  Þetta hafi sem betur fer breyst en hún hafi lært íslensku með stuðningi fjölskyldu mannsins hennar sem er fæddur á Íslandi. „Að fólk í samfélaginu viðurkenni að það sé talað á íslensku með hreim. Ég held að það myndi hjálpa mörgum að fá sjálfstraust og að taka fyrsta skref,“ segir Gosia.

Horfa á fréttatíma