Minnst fimmtíu látnir í flóðum í Japan

07.07.2020 - 06:47
Erlent · Hamfarir · Asía · Japan
epa08529885 A road is destroyed due the floods near the Kuma river in Ashikita, Kumamoto prefecture, Japan, 06 July 2020. According to latest madia reports, 39 people are feared to have died and at least 11 are still missing due to the floods that hit Kumamoto prefecture on 04 July.  EPA-EFE/JIJI PRESS JAPAN OUT EDITORIAL USE ONLY/  NO ARCHIVES
 Mynd: EPA-EFE - JIJI PRESS
Viðbragðsaðilar segjast í kapphlaupi við tímann við að bjarga fólki sem hefur orðið innlyksa vegna flóða og aurskriða í Kumamoto í Japan síðan um helgina. Búist er við enn meira steypiregni í vikunni. Minnst fimmtíu eru látnir og á annan tug er saknað.

Stanslaust úrhelli hefur verið frá því á laugardag. Fjöldi bæja er kominn á kaf þar sem ár hafa flætt yfir bakka sína. AFP fréttastofan hefur eftir Yutaro Hamasaki, sem sinnir björgunarstörfum á svæðinu, að leitarflokkar séu í kappi við tímann. Ekki hafi verið sett nein tímamörk, en því lengri tími sem líður því minni líkur eru á að finna fólk á lífi.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur kallað 80 þúsund út til leitar, þeirra á meðal lögreglumenn, slökkvilið, hermenn og strandverði. 

Fjórtán hinna látnu voru íbúar á hjúkrunarheimili sem aðeins komust ferða sinna á hjólastól. Þeir komust ekkert af jarðhæðinni og gátu því ekki forðað sér þegar vatnið flæddi inn. 

Búið er að koma upp fjöldahjálparstöðvum víða, enda hafa tugþúsundir orðið að flýja heimili sín.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi