Lögreglan í Hong Kong má eyða óæskilegum upplýsingum

07.07.2020 - 06:12
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína
epa08530606 A woman lies on the floor as she refuses to cooperate with police during a protest in a shopping mall in Hong Kong, China, 06 July 2020. Several dozen protesters held up sheets of blank paper after the government issued a statement linking the ‘Liberate Hong Kong, revolution of our times’ slogan, used during mall protests, to separatism.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Samkvæmt nýjum öryggislögum hefur lögreglan í Hong Kong leyfi til þess að gera húsleitir og hafa eftirlit með fólki án sérstakrar heimildar. Auk þess hefur lögreglan nú vald til þess að stýra og eyða upplýsingum af vefsíðum.

Netrisar á borð við Facebook, Google og Twitter segjast hafna kröfum stjórnvalda og lögreglu í Hong Kong um aðgang að upplýsingum um notendur. Samkvæmt nýju öryggislögunum, sem eru víðfeðm, er búið að afnema ýmsar hindranir í dómskerfinu til þess að lögregla geti aukið eftirlit sitt. Nú getur lögreglan leitað á fólki eða í húsum án sérstakrar heimildar ef hún telur það nauðsynlegt í þágu þjóðaröryggis. Eins má hún eyða út og stýra upplýsingum á vefsíðum, ef hún telur að þær varði þjóðaröryggi. Lögreglan getur krafið netveitur og þjónustufyrirtæki um að eyða upplýsingum og lagt hald á búnað þeirra. Ef þau neita geta þau átt von á sektum eða allt að eins árs fangelsi. Eins eiga fyrirtækin að veita upplýsingar um notendur og aðstoða lögreglu við að leysa dulkóðun.

Lam varar róttæklinga við

Carrie Lam, sem situr í forsæti héraðsstjórnar Hong Kong, segir nýju lögin verða tekin alvarlega. Hún varar róttæklinga við því að brjóta lögin eða að fara yfir strikið, því afleiðingarnar verði alvarlegar. Lögin tóku gildi 1. júlí og voru kynnt samdægurs. Í grunninn banna þau uppreisnaráróður, hryðjuverk og samstarf við erlend öfl. Eins hljóta Kínverjar dómsvald í einstaklega alvarlegum málum, sem áður voru á valdi heimastjórnarinnar í Hong Kong.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fór hörðum orðum um aðgerðir Kínverja í Hong Kong í gærkvöld. Hann sagði ritskoðun á aðgerðarsinnum, skólum og bókasöfnum í héraðinu vera í anda skáldskapar rithöfundarins George Orwell. Bækur ritaðar af lýðræðissinnum hafa verið teknar úr bókasöfnum héraðsins, og þá hafa yfirvöld í Hong Kong skipað skólum að fjarlægja bækur úr námsskrá sinni sem gætu brotið í bága við nýju lögin. Pompeo segir Kommúnistaflokkinn í Kína halda eyðileggingu sinni í Hong Kong áfram. Blekið hafi vart þornað á nýju lögunum þegar ybrjað er að fjarlægja bækur og banna pólitísk slagorð. Segir hann þetta nýjustu árásina á réttindi og frelsi íbúa Hong Kong.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi