Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kortleggja fornleifar í þrívídd og með hitamyndum

07.07.2020 - 09:50
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Drónar geta breytt því hvernig fornleifarannsóknir fara fram. Með tækjunum er bæði hægt að búa til þrívíddarlíkön af uppgreftarsvæðum og staðsetja minjar með hitamyndun.

Myndataka með drónum var fyrst nýtt til rannsókna í fornleifafræði á Íslandi fyrir tveimur eða þremur árum. Dróni er látinn svífa yfir afmörkuð svæði og tekur ótal myndir af sama blettinum í einu sem er síðan breytt í þrívíddarlíkan.

Gunnar Grímsson, fornleifafræðingur, segir mikinn tímasparnað fólginn í aðferðinni.

„Með þessu er hægt að finna margar minjar á afskaplega skömmum tíma. Þar á meðal minjar sem sjást afar illa á yfirborðinu. Jafnvel alls ekkert þegar maður stendur á svæðinu. Í raun er ég að taka stafrænt afrit af landsvæðinu og þá er ég með hverja einustu hæðarbreytingu og þar á meðal útlínur fornleifa,“ segir Gunnar.

Tímasparnaður fólgin í notkun dróna

Nú kortleggur hann Arnarfjörð á Vestfjörðum. Hann byrjar á honum norðanverðum og ætlar að reyna að ná sem stærstum hluta fjarðarins.

Kortlagning getur verið tímafrekt verk, en með notkun drónans er bæði hægt að spara tíma og jafnvel finna fornleifar sem væri annars farið á mis við.

Myndunum er safnað saman og því næst púslað saman í tölvu.

„Þessar myndir verða svo skimaðar eftir fornleifum og við reynum að finna útlínum á mannvirkjum. Vanalega er þetta rétthyrnt eða ferkantað. Þar sem þetta rís aðeins upp úr jörðinni getum við séð það afar vel á hæðarlíkönum.“

Hitamyndir sýna leifar sem sjást ekki með berum augum

Með hitamyndum er þá hægt að koma auga á fornleifar sem oft sjást engin merki um á yfirborði jarðar. Minjarnar safna í sig hita frá sólinni yfir daginn og geisla honum frá sér að nóttu.

Gunnar tekur dæmi um mynd sem er tekin um hálf fjögur um nótt yfir rústarsvæði. Á henni sjáist hitaójafna sem er vegghleðsla af gamalli rúst.

Hann telur ófá tækifæri í notkun dróna í rannsóknum á Íslandi. Margar minjar eigi eftir að kortleggja, sem væri hægt að nýta tækin til og þannig auðvelda verkið.